154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um ópíóíðavanda á Íslandi hafa 139 manneskjur látist af völdum ópíóíða á síðastliðnum sjö árum. Þar af voru 63% þeirra undir 44 ára aldri er þau létust. Þetta eru hræðilegar staðreyndir, virðulegi forseti. Þar sem er enn þá verra er að lesa um algjört sinnuleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum dauðsföllum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar stendur, með leyfi forseta:

„Embætti landlæknis telur bagalegt að ekki hafi verið sett stefna og áætlun um hvernig skuli brugðist við auknum fíknivanda. Þess í stað hafi verið ráðist í stök verkefni án heildarstefnu. Vegna þess hve flóknir fíknisjúkdómar séu þarfnist þeir víðtækrar aðkomu og sérstaklega þurfi að huga að því hvernig megi stuðla að aukinni samhæfingu ólíkra aðila sem koma að málaflokknum.“ — og hér kemur mikilvægi þátturinn, virðulegi forseti — „Að sögn heilbrigðisráðuneytis er ekki um ákveðna forystu að ræða þar sem um margþætt samfélagslegt málefni er að ræða.“

Heilbrigðisráðuneytið lítur ekki svo á að það eigi að taka forystu í málaflokki sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið samkvæmt forsetaúrskurði vegna þess að þetta sé margþætt, samfélagslegt og flókið verkefni. Þetta heitir að skorast undan skýrri ábyrgð, virðulegi forseti. Þetta heitir að hunsa mikilvægt hlutverk heilbrigðisráðuneytisins í því að bjarga mannslífum. Það er ótrúlegt hversu lengi málefni fólks með fíknivanda hafa fengið að velkjast um í einhverjum pólitískum skollaleik, stefnumótunum, starfshópum, umhugsunar- og umþóttunartíma ráðherra sem hafa ekki hugrekki til að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka til að bjarga mannslífum, sem hafa ekki þor til að setja fjármagn í málaflokk sem augljóslega þarf á því að halda, sem þora ekki að taka þá nauðsynlegu ákvörðun að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna, koma á almennilegri skaðaminnkunarstefnu og gera eitthvað til þess að stöðva tugi mannsláta á hverju ári sem hægt er að koma í veg fyrir. Þetta er óforsvaranlegt, virðulegi forseti.