154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér á eftir munum við greiða atkvæði um framkvæmdir í málefnum fatlaðs fólks 2024–2027. Því miður verður bara að segjast alveg eins og er að ríkisstjórnin dregur lappirnar á öllum sviðum og fer eiginlega ekki að lögum. Fyrir stuttu vorum við að ræða við konu frá Kvenréttindafélagi Íslands sem benti á að komið hefði fram að kynbundið ofbeldi gegn konum væri vantilkynnt, miklum fjölda sakamála er varðar nauðung og annað kynferðisofbeldi væri haldið niðri hjá ríkissaksóknara og hlutfall sakfellingar mjög lágt. Einnig kom fram að það væri óhóflega mikil hætta á heimilisofbeldi gegn konum með fötlun og óhóflega lágt hlutfall sakfellingar í þeim málum. Sú aukna hætta á einnig við um aðfluttar konur.

Þetta kemur líka fram í sambandi við framkvæmdaáætlun fatlaðra. Það er stórfurðulegt að samkvæmt lögum á að setja inn framkvæmdaáætlun á mannamáli þannig að viðkomandi fatlaðir einstaklingar geti lesið hana. Það fór fram umræða um það hér í gær og þar kom fram að þetta væri inni á gátt. Fatlaður einstaklingur reyndi að finna þetta og fann það ekki. Ég reyndi að finna þetta og ég fann þetta ekki. Þetta er ekki þar inni en ég fann frumvarp um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem hafði verið birt þar. Þessi framkvæmdaáætlun er ekki þar inni.

Annað sem er mjög athyglisvert í þessu er að við erum með frumvarp, Flokkur fólksins, um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það er búið að vera hérna í sex eða sjö ár. Ég er einnig með lögfestingu og fullgildingu valfrjálsu bókunarinnar. Hvort tveggja er inni en fær ekki að fara út úr nefnd. En síðan ætlum við að fara með framkvæmdaáætlun í atkvæðagreiðslu sem fatlað fólk getur ekki einu sinni lesið hvað stendur í.