154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Hvað gera fyrirtæki í samfélagi þar sem enginn íbúi er? Svarið liggur svo sem á borðinu; þessi fyrirtæki gera ekki nokkurn skapaðan hlut og þannig háttar til í Grindavík þessa dagana. Mörg smærri fyrirtækjanna hafa ekki getað starfað frá því að náttúruhamfarirnar hófust þann 10. nóvember síðastliðinn. Þrátt fyrir að rekstrarstyrkir hafi verið greiddir til að mæta þessum fyrirtækjum að hluta hafa lánin haldið áfram að safna á sig vöxtum og þrátt fyrir að hægt hafi verið að semja um frestun afborgana þá munu þær skella á af fullum þunga á nýjan leik og fyrirséð að gjaldþrot bíður margra þessara aðila verði ekkert að gert. Þessi fyrirtæki eru mörg hver að veita þjónustu við fólk og þegar fólk er ekki til staðar þá er engin þörf fyrir þau. Við getum nefnt veitingahús, hárgreiðslustofur, snyrtistofur, verslanir og ýmis önnur fyrirtæki. Hópur eiganda þessara fyrirtækja hefur átt fundi með þingmönnum og kynnt fyrir þeim hugmyndir að aðgerðum sem gætu komið til bjargar en þær eru m.a. eftirfarandi: Að styðja við fyrirtæki sem vilja vera áfram í Grindavík, að greiða flutningsstyrki fyrir fyrirtæki sem geta flutt tímabundið og að kaupa upp húsnæði þessara fyrirtækja til að þau geti þá hafið rekstur annars staðar. Margir þessara aðila eru í persónulegum ábyrgðum og munu, ef ekkert verður að gert, verða gjaldþrota. Að láta þessi fyrirtæki falla er ekki í neinu samræmi við margt það sem sagt hefur verið hér í þessum þingsal. Einn þingmanna meiri hlutans sagði í umræðu um uppkaupin á húsnæði í Grindavík eitthvað á þá leið að þegar 1% lenda í vandræðum þá komi hin 99% til hjálpar. (Forseti hringir.) — Virðulegur forseti. Sú staða er uppi núna. Litlu fyrirtækjunum í Grindavík er að blæða út.