154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Við í Flokki fólksins erum orðin langþreytt á því að bíða eftir raunverulegum aðgerðum og úrbótum til handa fötluðu fólki. Það sem hér er í rauninni á ferð er sýndarmennska og ekkert annað þar sem við höfum ekki enn þá löggilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem allar þessar aðgerðaáætlanir byggja á. Allt það sem við erum að greiða atkvæði um hér og nú byggir á samningi sem ekki hefur verið lögfestur. Þetta er grín, virðulegi forseti, í mínum huga er þetta hreint og klárt grín. Þetta er að valda slíkri vanlíðan eins og t.d. á verndaða vinnustaðnum Múlalundi þar sem fólk er gjörsamlega niðurbrotið yfir því að nú er það hið frábæra starfsgetumat og framtíðin björt og falleg, allir eiga að komast yfir á almennan vinnumarkað. Það verður í rauninni að koma þessu frá sér þannig að fólk sé ekki í algeru áfalli, fólk sem við ættum frekast að hugsa um, fatlað fólk í samfélaginu. Við verðum að gera mun betur. Flokkur fólksins mun aldrei greiða atkvæði með slíkri hundslappadrífu eins og þetta er.