154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

[15:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég kem hér til að bera af mér sakir um dónaskap og furðulega framgöngu gagnvart því máli sem við erum sannfærð um að sé ekki gott mál. Ég ítrekaði hér við hv. formann velferðarnefndar hvers vegna samningur Sameinuðu þjóðanna, sem ég hef mælt hér fyrir fimm eða sex sinnum í þessum ræðustól, er ekki komin inn í lýðræðislegt ferli hér inni á Alþingi Íslendinga. Allt það sem við erum að greiða atkvæði um hér og nú, það er okkar sannfæring að það byggi ekki á réttum forsendum. Það er verið að byggja á einhverju sem hefur ekki verið leitt í lög. Þetta er í kjólinn fyrir jólin ef maður er búinn að léttast um 40 kíló kannski. En núna, eins og staðan er, þá er verið að byrja á öfugum enda. Það er sannfæring Flokks fólksins af öllu hjarta, enda líka eina fatlaða liðið á þinginu, er það ekki, fyrir utan einhvern einn annan einstakling? Við sennilega höfum ekki hugmynd um það (Gripið fram í: Vertu ekki svona ómálefnaleg.) þegar fólk er að leita til okkar, (Gripið fram í.) fatlað fólk, (Forseti hringir.) hvað við erum að segja. En okkar sannfæring hlýtur að mega ráða. (Gripið fram í: Hversu lágt getur fólk lagst?)