154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[15:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er lagt til að frumframleiðendur landbúnaðarafurða eða félög þeirra njóti tiltekinnar undanþágu frá 10. og 12. gr. samkeppnislaga varðandi bann við ólögmætu samráði. Við þurfum að efla og styrkja bændur og það hefur sjaldan verið ljósara en í því efnahagsástandi sem ríkir núna og ég ætla að horfa á þessa tillögu þannig þó að ég sé í grundvallaratriðum ósammála því hvaða leið meiri hlutinn velur sér hér. Betri leið væri, að mínu mati og okkar í Viðreisn, að láta reyna á það hvernig fyrirtæki geti sótt hagræðingu á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga sem bjóða upp á slíka leið og ekki hefur verið látið á reyna hér. Ég óttast fordæmið sem sett er með þessum plástri, að grípa svona með annarri lagasetningu inn í það umhverfi sem við höfum sett fyrirtækjum hér á landi með samkeppnislöggjöfinni okkar. Við munum því sitja hjá í þessu máli. Ég ætla samt að taka það fram (Forseti hringir.) að ýmsar þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram bæta málið en það breytir ekki þeirri grundvallarafstöðu sem við í Viðreisn höfum til málsins.