154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tjáði sig með afgerandi hætti um kaup Landsbankans í hlaðvarpinu Þjóðmál 2. febrúar síðastliðinn og lagðist gegn slíkum kaupum. Það gerði hún aftur í Facebook-færslu núna á sunnudaginn. Það að tala um þetta er ekki tilraun til að draga athyglina frá kjarna máls, hæstv. ráðherra. En hvað gerðist þarna á milli, virðulegi forseti? Það er spurningin sem brennur á mér. Hæstv. ráðherra fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur gagnvart Bankasýslu ríkisins. Ráðherra er vörslumaður ríkiseigna, gæslumaður almannafjár, og ráðherra ber ábyrgð á því að meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sé ekki aðeins í samræmi við lög heldur einnig í samræmi við eigendastefnu ríkisins sem hæstv. ráðherra talaði hér um. Þetta er kjarni málsins í þessari umræðu. Ráðherra hefur líka sérstaka heimild samkvæmt lögum um Bankasýsluna til þess að beina tilmælum til stofnunarinnar vegna einstakra mála.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Í ljósi þess að ráðherra vissi af þessum þreifingum Landsbankans og var spurð um þær, tjáði sig um þær strax í byrjun febrúar, og í ljósi þess að ráðherra telur augljóslega kaupin ganga gegn eigendastefnu ríkisins, hvers vegna beitti ráðherra þá ekki þeim lagaheimildum sem hún sannarlega hefur til þess að reyna að hindra að kaupin næðu fram að ganga? Hvers vegna ekki? Hvernig beitti hæstv. ráðherra sér í þessu máli, ekki bara núna frá því á sunnudaginn heldur á tímabilinu 2. febrúar til 17. mars? Með hvaða hætti beitti hæstv. ráðherra sér á þessum tíma?