154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:39]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Við erum hér að ræða mikilsvert mál sem snýst að miklu leyti um traust á banka þjóðarinnar þar sem atburðir síðustu daga hafa orðið til þess að rýra traustið á bankana. Því miður erum við hér enn og aftur að upplifa það að atburðir verða til þess að traust bankanna og fjármálakerfisins er rúið.

Ég vil tala um eitt hérna. Við höfum hlustað á þingmenn í dag tala um kjör bænda. Þau eru erfið. Ég sé hér að formaður Framsóknarflokksins brosir að því, en það er staðreynd að kjör bænda eru erfið og einn meginþátturinn í því er hvað bankakerfið er dýrt, það eru okurvextirnir. Það eru hlekkir bæði á atvinnulífinu og bændunum hér í landinu. Heimilin eru í miklum erfiðleikum. Það sem við horfum á núna er algjört öngþveiti hér í aðhaldi að stærsta bankanum. Síðan er seðlabankastjóri ekkert á þeim buxunum að lækka vextina í landinu. Við erum auðvitað í ákveðinni kreppu með þessi mál. Og þegar þessi mál koma upp virðist ekki vera neitt á hreinu hvernig hæstv. ráðherra ætlar að taka á þeim. Hún lýsir því yfir hér að hún beri fyllsta traust til stjórnenda sem fara á bak við stjórnmálamennina sem bera ábyrgð á bankanum, fara á bak við þjóðina, fara gegn þeirri stefnu sem uppi er. Auðvitað er ekki hægt að bera mikið traust til slíkra aðila og þeir þurfa að sæta ábyrgð. Hver sem hún verður gefur það augaleið að ef menn ætla að efla traust á bönkunum þannig að almenningur fari að treysta þessum stofnunum í frekari mæli þá verður það að gerast með því að þeir sem stíga út fyrir strikið sæti einhverri ábyrgð. Það er auðvitað algert lágmark.

Það er rétt að skoða þessi kaup á TM, fara aðeins yfir söguna, bara þrjú ár aftur í tímann. Fyrir þremur árum síðan var einmitt sameining og yfirtaka bankans, sem er núna að selja, á TM. Það átti að skapa gríðarlegan arð og auð og viðskiptatækifæri og bréfin í Kviku blésu upp og einhverjir nutu þess ávinnings að fá jafnvel kaupréttarsamninga í kjölfarið. Nú er allt í einu þetta orðið hálfgerður myllusteinn á Kviku og svo virðist vera að bankaelítan, sem virðist vera í forgrunni, taki það upp á sitt einsdæmi og losi Kviku við TM. Þetta þarf að skýra nánar. Þetta er ekki mjög trúverðugt ferli. Þær skýringar sem hafa komið hér fram og hvernig hæstv. ráðherra er að forðast ábyrgðina með því að vísa henni á Bankasýsluna sem er að bíða eftir svörum frá bankanum og eitthvað svona — það sem vantar er skýr pólitísk ábyrgð, að hæstv. ráðherra verði hér fulltrúi fólksins á Akranesi, Sauðárkróki sem er að kikna undir vöxtunum, verði fulltrúi þeirra sem eru í rauninni að borga þennan ofurhagnað bankans. Bankinn var á síðasta ári með 33 milljarða í hreinan hagnað.

Það var hægt að gera tvennt við þennan hagnað. Það var hægt að skila honum til ríkissjóðs og svo er hin leiðin, sem hefði verið eðlilegri, að minnka álögur á þá sem eru að borga vextina. En því miður þá virðist að einhverju leyti Sjálfstæðisflokkurinn með hæstv. fjármálaráðherra yfir málaflokknum fyrst og fremst líta til þess að hafa bankaelítuna í forgrunni og ef það á að hreyfa við fólki sem fer alveg þvert á stefnu stjórnvalda, þá er það bara eitthvert aukaatriði og reynt að þvæla ábyrgðinni út og suður með einhverjum bréfaskriftum nánast milli vina, vil ég segja, þegar grannt er skoðað er þetta örugglega bara vinahópur, þröngur vinahópur.

Frú forseti. Ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra verði fulltrúi fólksins og að bankarnir verði samfélagsbankar þar sem menn hugi að því að taka ekki svona ofurvexti, jafnvel í mikilli verðbólgu, þannig að bankinn sé að skila 33 milljörðum í hagnað. Auðvitað ætti miklu frekar að skila þessum fjármunum í ríkissjóð ef menn sáu sig á annað borð knúna að taka þessa ofurvexti af fólkinu.

Ég sé að tíma mínum er lokið en það er vert að huga að því að ráðherrann á auðvitað fyrst og fremst að vera fulltrúi þjóðarinnar en ekki bankaelítunnar. Og það að menn séu tilbúnir að þurrka út ábyrgð þeirra sem fara á bak við ráðherrann, bak við Bankasýsluna, þvert á stefnuna, gengur ekki upp.