154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

847. mál
[17:24]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel þetta ágætt frumvarp svo langt sem það nær. En það er auðvitað undarlegt að við séum með sérstaka ríkisverðlagningu á fiski. Það er mjög undarlegt í marga staði að við séum hér árið 2024 með ríkisverðlagningu sem metur verðgildi fisksins venjulega tugum prósenta lægra en markaðurinn segir til um. Þetta hefur valdið miklum samkeppnisbresti hjá fiskvinnslum sem geta ekki nýtt sér þessa ríkisverðlagningu og það eru sjálfstæðar fiskvinnslur. Þetta hefur leitt til meiri og meiri samþjöppunar í greininni og nóg er nú þegar orðið hvað það varðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að fara t.d. þá leið sem notuð er í nágrannaríkjunum, að skylda ákveðinn hluta af afla skips á markað og fá þá raunverð á afla í stað þess að starfrækja hér gamaldags ríkisverðlagningu. Ég er svolítið hissa á því að sumir stjórnmálaflokkar sem býsnast yfir verðlagningu á landbúnaðarvörum skuli ekki vera hér í salnum og taka þessa umræðu vegna þess að þetta er miklu stærra mál. Þetta er mjög mikilvægt mál þjóðhagslega, bæði út frá samkeppnisforskoti þeirra sem geta notið þessa ríkisverðs og síðan eru ýmsir aðrir þættir sem snúa að launauppgjöri sem skipta verulega miklu máli.

Svo að ég dragi þetta saman þá er þetta frumvarp ágætt svo langt sem það nær en það hefði verið hægt að fara miklu sanngjarnari leið, nota markaðslögmálin og fá þá raunverð.