154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

847. mál
[17:32]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Þetta er gríðarlega stórt mál sem hér er undir. Frumvarpið sem hér um ræðir er í sjálfu sér hænuskref, örlítið hænuskref, kannski hálft hænuskref, hvað það varðar að koma verðlagsmálum í eitthvert vitrænt horf. Eðlilegast væri auðvitað að markaðsverð á fiskinum gilti í staðinn fyrir einhver ríkisverðlagning sem vel að merkja er tugum prósenta lægri en markaðurinn. Það er stórundarlegt að þetta virðist einhvern veginn vera undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins. Ég gæti trúað því að hæstv. forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra — ef maður les umsagnir þeirra sem virðast kannski fara með völdin í Sjálfstæðisflokknum virðist þetta jafnvel hafa verið fullmikið, að stíga þetta örstutta skref.

En hvers vegna er þetta svona stórt og mikilvægt mál? Jú, þegar verið að borga verð sem er talsvert undir markaðsverði skapar það gríðarlegt ójafnvægi. Samkeppnisforskotið er það mikið hjá stórútgerðinni sem hefur vinnslu og útgerð á sömu hendi. Það verður til þess að samþjöppunin verður alltaf meiri og meiri í greininni og þetta er farið að leiða út í aðrar greinar, eins og ég minntist á í andsvari mínu við hæstv. ráðherra. Þetta leiðir til þess að laun sjómanna skerðast sem verður til þess að ríkissjóður, sem nú er kannski rekinn með halla, fær minna í sinn hlut. Það ætti þá að vera forgangsverkefni hjá hæstv. fjármálaráðherra að taka á þessu máli sérstaklega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn telur sig stundum vera markaðsflokk. En þegar komið er að þessum stóru aðilum þá er það látið lönd og leið.

Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir sveitarfélögin vegna þess að hafnargjöld eru greidd af verðgildi aflans. Ég er nokkuð viss um að hafnarsjóðir vítt og breitt um landið myndu fagna því að fá markaðsverð, tugum prósenta hærra. Það gefur sveitarsjóði miklu meira í sinn hlut. Það verður meira útsvar frá sjómönnunum og eðlilegra samkeppnisumhverfi fyrir fiskvinnsluna í landinu. Hvað hefur það í för með sér ef samkeppnisumhverfið er eðlilegra? Förum aðeins yfir það, herra forseti. Það leiðir til þess að fiskurinn fer fyrst og fremst í þær vinnslur sem gera betur en hinar, í staðinn fyrir að hann fari á undirverði inn í risavinnslur, sovéskar vinnslur, sem geta gengið að aflanum á verði sem er tugum prósenta undir markaðsvirði. Þetta verður til þess að til verða einhverjar risavinnslur og þær sem eru mögulega að skila besta verðinu fá ekki hráefnið.

Þetta hefur líka annað í för með sér, þetta sparar auðvitað eftirlit og myndi þá líka minnka kostnaðinn af því að halda þessu apparati úti og allt það. En fiskmarkaðurinn, þótt það væri bara 25% úr hverri veiðiferð sem færi inn á markað, myndi leiða til þess að það yrði erfiðara og ekki eins mikill hvati og möguleikarnir aðeins þrengri til þess að vera að selja í gegnum sín sölufélag eins og nú tíðkast hjá fyrirtækjunum. Það er hvert og eitt fyrirtæki sem hefur hér vinnslu og útgerð á sinni hendi með sitt sölufélag. Og það hefur verið fjallað um það í Ríkisútvarpinu að það sölufélag sé jafnvel í gegnum annað sölufélag sem er staðsett í skúffu á Kýpur eða einhvers staðar. Þetta einfalda mál, að tryggja að það verði eðlileg verðlagning á útflutningsafurð þjóðarinnar, myndi hafa miklu jákvæðari áhrif; gjaldeyririnn skilar sér til landsins.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, sem hefur nú talað fjálglega um það, og það hefur jafnvel verið í stefnuskrá ríkisstjórnar hennar, að efla traust á stjórnsýslunni, efla traust á stjórnmálunum og því miður erum við alltaf að síga niður þennan spillingarlista. Það er meðal annars vegna þess að þessi verðlagning og sérgæskan gagnvart þeim stóru í samfélaginu í sjávarútveginum er bara komin út fyrir öll mörk, enda eru þeir, eins og ég nefndi í andsvari mínu, farnir að eignast annað hvert fyrirtæki sem einhver akkur er í. Það væri hægt að ná einhverjum böndum á þetta útflæði fjármagns. Gott ef Íslendingar settu ekki heimsmet á Tortóla miðað við höfðatölu, en við færum þá að setja einhver jákvæðari heimsmet. En hvað sem því líður þá er þetta bara einföld leið, að taka á samþjöppuninni og líka það að veiðin færist yfir á hagkvæmari einingar.

Við erum hér með formann Vinstri grænna og það er rétt að velta því upp hvers vegna togarar taka hlutfallslega alltaf meira og meira af aflanum til sín miðað við vistvænni veiðarfæri, til dæmis handfæri og línu og allt það. Nú skal það tekið fram að ég er mjög meðmæltur togveiðum en ekki er þar með sagt að við eigum bara að ástunda togveiðar og útrýma öðrum útgerðarformum, alls ekki. Við ættum miklu frekar að reyna að ýta undir þær í staðinn fyrir að vera með svona sérreglur hvað varðar verðlagningu og hvað varðar vigtun sem koma þeim stóru í greininni afar vel.

Hvers vegna segi ég að við eigum að horfa á þessi minni útgerðarform? Jú, það er kolefnissporið sem sumir hafa miklar áhyggjur af. En ég hef áhyggjur af öðru. Ég hef áhyggjur af því að dagróðrabátarnir eru að skila betri afla, herra forseti. Ef til sölu er þriggja til fjögurra daga gamall togarafiskur við hliðina á nýjum línufiski, hvor fer á hærra verði? Jú, það er auðvitað handfærafiskurinn og krókafiskurinn. Þess vegna finnst mér alvarlegt að það hafi ekki komið fram, nú þegar Vinstri grænir hafa stýrt ráðuneytinu í nokkur ár, einhverjar tillögur til að jafna leikinn. Auðvitað er þetta lítið skref og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Ég er svo sem ekki heldur að gera mikið úr því en auðvitað á maður að þakka hvert skref í rétta átt. En þetta er bara ekki nóg. Það þarf að vera mun meiri jöfnun nema menn ætli að leggja af allar minni fiskvinnslur í landinu. Það þarf að tryggja jafnræði og ég tel að þessi ríkisverðlagning sem fer svona ójafnt að — það er svo auðvelt að breyta þessu. Það er mjög auðvelt að breyta þessu. Skikka bara ákveðinn hlut á markað, þá er þetta mál leyst. Í staðinn fyrir að vera hér með einhverja ríkisstofnun.

Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé eitthvert annað land í Vestur-Evrópu, annað lýðræðisríki í Vestur-Evrópu, þar sem svona er komið fyrir helstu útflutningsgrein þjóðarinnar og náttúruauðlind, að hún sé seld í gegnum sölufélög og allar líkur á að gjaldeyririnn skili sér ekki að fullu til landsins. Með því að fiskurinn fari á markað er verið að þrengja að þessum möguleikum. Leikurinn verður jafnaður og auðvitað ætti það að vera efst á forgangslista stjórnvalda sem vilja tryggja lýðræði og tryggja jafnræði að setja tappann fyrir þetta útstreymi inn í skattaskjólin. Þetta er því miður ekki á borðinu enn sem komið er en auðvitað hlýtur að koma að því nema að menn ætli að verða hálfgert bananalýðveldi.

Við erum í raun að horfa hér upp á ástand, að sumu leyti, eins og í Namibíu, herra forseti. Það sem gerðist í Namibíu er eitthvað sem hefur verið tíðkað hér. Hvað á ég við, hæstv. forsætisráðherra? Ég á auðvitað við það að þar var aflinn seldur í gegnum skattaskjól og raunverð var ekki greitt til stjórnvalda. Ef stjórnvöld meina eitthvað með þessu, að taka á spillingunni, samþjöppuninni, koma á einhverju eðlilegu samkeppnisumhverfi, þá verði að fara í þetta mál. Það verður að fara fram verðlagning á markaðsforsendum þar sem sumir eru ekki jafnari en aðrir. Þetta er komið langt út fyrir öll mörk hvernig gengið er undir stórútgerðinni hvað varðar þessa þætti. En síðan, ef víkja á nokkrum sporðum til almennings, eða hafa eitthvert jafnræði þar um, t.d. strandveiðar, þá er allt í voða og kerfið er ekki klárt til þess og menn horfa bara á það í mjög þröngum ramma að þar sé hægt að hliðra eitthvað til.

Þetta virðist því miður halda áfram. Við erum hér að ræða frumvarp, svona nýfrjálshyggjufrumvarp, þar sem hæstv. matvælaráðherra, sem nú er í leyfi, virðist hafa vikið grásleppunni að formanni atvinnuveganefndar til að koma henni inn í þetta kerfi. Það er alveg ljóst hvert stefnir. Það mun auðvitað færast á þær hendur sem eru nú þegar með kvótaþakið, og jafnvel komnar upp fyrir það. Og það er auðvitað áhyggjuefni að Vinstri grænir séu farnir að reka hér nýfrjálshyggjustefnu. Það væri kannski hægt ef menn væru tilbúnir að láta markaðinn ráða að einhverju leyti hvað varðar verðlagningu á fiskinum — nei, það er sérgæskan sem gildir gagnvart þeim sem hafa tökin á stórútgerðinni. Þetta er auðvitað óþolandi ástand og ég er að öllu leyti hissa á því að þetta mál skuli ekki fá meiri umræðu á Alþingi Íslendinga þar sem þetta er stórt hagsmunamál. Það er engin vestræn þjóð sem sætti sig við það ástand sem er látið viðgangast hér. Og það eru jafnvel búnir til auglýsingabæklingar um að þetta sé besta kerfi í heimi, bara eins og gömul Thule-auglýsing. Auðvitað er það ekki þannig.

Þetta litla mál í að koma einhverjum böndum á þetta er auðvitað til bóta. Það væri auðvitað til bóta ef þessi stjórnun færi undir Samkeppnisstofnun eða einhver álíka mál þannig að það fengist meiri þungi í umræðuna um sjávarútvegsmálin. Við höfum formann Byggðastofnunar, stjórnarformann, hv. þm. Halldóru Hauksdóttur, hér í salnum og þessi sérgæska virðist einnig ná til úthlutunar á byggðakvótanum. Einhverra hluta vegna lendir það einnig hjá stórútgerðinni. Ég segi nú bara: Það er kominn tími til að snúa þessu við. Þetta er pínulítið mál en það er þó í rétta átt og eigum við ekki að fagna því, herra forseti?