154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[17:58]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um nýja náttúruverndar- og minjastofnun. Frumvarpið er unnið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í náinni samvinnu við viðkomandi stofnanir ráðuneytisins. Tillagan lýtur að því að Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður, Minjastofnun og sá hluti Umhverfisstofnunar sem snýr að náttúruvernd sameinist í nýja stofnun, Náttúruverndar- og minjastofnun. Tillagan er hluti af umfangsmiklum stofnanabreytingum sem ég hef unnið að frá árinu 2022, nánar tiltekið frá því í júní þegar við hófum það verkefni en auðvitað hófst undirbúningur fyrr.

Nú þegar liggur fyrir þinginu frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun, frumvarp til laga um Umhverfis- og orkustofnun og frumvarp til laga er varðar sameiningu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri. Eins og áður hefur verið nefnt helst frumvarp þetta í hendur við frumvarp til laga um nýja umhverfis- og orkustofnun sem er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd. Í því frumvarpi er lögð til sameining Orkustofnunar og þess hluta Umhverfisstofnunar er varðar umhverfis- og loftslagsmál. Því er gert ráð fyrir að verkefni Umhverfisstofnunar skiptist niður á þessar tvær nýju stofnanir. Áform um lagasetningu og drög að fyrirliggjandi frumvarpi hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda og unnið úr framkomnum athugasemdum.

Í vinnu við stofnanabreytingar hef ég stefnt að því að einfalda til muna stofnanakerfið, bæta þjónustu, efla þekkingar- og lærdómssamfélag, skapa áhugaverða vinnustaði og fjölga störfum á landsbyggðinni, en flest þau verkefni sem að mínu ráðuneyti snúa eru á landsbyggðinni og það er mjög mikilvægt að störfin séu þar sem verkefnin eru. Staðarþekking verður aldrei metin til fjár. Auðvitað er mikilvægt að hafa störf óháð staðsetningu, að fólk hafi val um hvar það býr og í því eru miklir möguleikar þegar kemur að þessu í mörgu af þessu, en ég endurtek og legg áherslu á að flest þessi verkefni eiga heima og eru tengd ákveðnum svæðum á landinu og það er mikilvægt að störfin séu þar. Það er algerlega skýrt markmið í þessu frumvarpi og öðru sem kemur að stofnanabreytingum að störfin séu þar sem verkefnin eru og þess vegna er áherslan á að störfin séu á landsbyggðinni.

Við höfum stigið skref hvað þetta varðar án þess að fara í stofnanabreytingar. Þannig var t.d. lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs fært frá höfuðborgarsvæðinu yfir á Höfn í Hornafirði og nú nýverið var ég að opna starfsstöð Umhverfisstofnunar á Hvanneyri. Síðan er auðvitað markmiðið að nýta betur þekkingu, innviði og gögn. Auk þess er markmiðið að auka sveigjanleika og samþættingu stefnumótunar, einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. Þá er breyttu stofnanakerfi ekki síst ætlað, og það er mjög mikilvægt, að tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Það er sömuleiðis skrifað út í frumvarpinu, því að þjóðgarðar eru auðvitað, eins og nafnið gefur til kynna, garður fyrir þjóðina. En þú nærð ekki góðum árangri með uppbyggingu á þjóðgörðum nema sá partur þjóðarinnar sem býr við garðinn eða í garðinum sé virkur þátttakandi og hlutirnir séu gerðir með þeim hætti að þeir séu í forystu eða mjög sáttir við þá uppbyggingu sem þar er.

Að baki frumvarpinu liggur frumathugun sem unnin var í samvinnu við forstöðumenn og aðra starfsmenn stofnana. Athugunin leiddi skýrt í ljós mikla samlegð með verkefnum sem ríkið sinnir innan þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða. Þá eru sóknarfæri í því að samþætta ferli og uppbyggingu annars vegar við vörslu menningarminja og hins vegar í náttúruvernd. Ávinningur af þessum stofnanabreytingum lýtur þá að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu.

Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu, í þessu máli, að menn hugi að því að það er mjög sérstakt að menn líti á svæði án þess að skoða þau bæði út frá augum menningarminja og náttúruminja. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, af því að það er ekkert leyndarmál, að það hefur komið ákveðin gagnrýni á það að menningarminjar séu inni í þessu, en ég vek athygli á því að allir þjóðgarðar í fortíð, nútíð og framtíð verða að líta sérstaklega á menningarminjar líka. Annað væri fullkomlega óhugsandi og fráleitt. Það er ekki hægt að skoða svæði, hvar sem er á landinu, jafnt á höfuðborgarsvæðinu, ég tala nú ekki um úti á landsbyggðinni, án þess að líta til menningarminja. Það er mjög mikilvægt að þegar við erum að huga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum, að við séum alltaf með augun á hvoru tveggja, bæði náttúruminjunum og menningarminjunum. Þess vegna er mikilvægt að þær stofnanir sem um þau mál fjalla séu með sömu gleraugun og í rauninni er sérkennilegt að hugsa til þess að menn vilji í alvöru hafa það ótengt. Ávinningur af þessum stofnanabreytingum lýtur þá að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu.

Í forathuguninni voru tilgreind meginmarkmið og tillögur um stofnanabreytingar þar sem m.a. var byggt á greiningu á fjármálum og rekstri, mannauðsmálum og húsnæðismálum auk þess sem sérstaklega var skoðuð staðsetning starfa á landsbyggðinni.

Nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun er ætlað að sinna verkefnum á sviðum náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar, menningarminja, friðlýstra svæða, þar með talið þjóðgarða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Lykilhæfni nýrrar stofnunar snýr að stýringu á sjálfbærri umgengni og nýtingu á minjum í víðum skilningi þar sem lykilþættirnir eru verndun og þjónusta, ráðgjöf, miðlun, fræðsla og þróun innviða.

Við gerð frumvarpsins var sérstök áhersla lögð á að efla og viðhalda því skipulagi sem skilað hefur góðum árangri við stefnumótun um stjórn og vernd innan þjóðgarða. Gert er ráð fyrir að í nýrri stofnun verði ekki skipuð sérstök stjórn heldur fari svæðisstjórnir með umsjón tiltekinna landfræðilega afmarkaðra svæða. Þannig starfi Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður og Snæfellsþjóðgarður óslitið áfram, en með tilkomu nýrrar stofnunar verði stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallanefnd ekki lengur stjórnir yfir sjálfstæðum ríkisstofnunum. Þá fái þjóðgarðsráð Snæfellsjökulsþjóðgarðs aukin áhrif hvað varðar stefnumótun um stjórnun og vernd innan marka þjóðgarðsins.

Gert er ráð fyrir að Breiðafjarðarnefnd starfi áfram og að Vatnajökulsþjóðgarði verði sökum stærðar áfram skipt í fjögur rekstrarsvæði með svæðisráðum eins og verið hefur. Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hafi hins vegar heildarumsjón með þjóðgarðinum öllum. Svæðisstjórnirnar munu hafa það hlutverk að móta stefnu fyrir viðkomandi svæði í gegnum stjórnunar- og verndaráætlanir og aðrar stefnumótandi áætlanir, svo sem atvinnustefnu. Þar sem svæðisstjórnirnar verða ekki lengur stjórnir yfir sjálfstæðum ríkisstofnunum munu þær ekki hafa það hlutverk að fjalla sérstaklega um rekstur stofnunarinnar í heild sinni, en munu hins vegar koma að vinnu við gerð fjárhagsáætlana svæða og veita stjórnendum ráðgjöf um áherslur í starfi hvers þjóðgarðs.

Útivistarsamtök og félagasamtök eru í dag með áheyrnaraðild að fundum stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs auk þess sem einn stjórnarmaður er tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs muni þrír fulltrúar heildarsamtaka á sviði náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu eiga áheyrnarfulltrúa. Tillagan byggir á því að rétt sé að fulltrúar hagsmunasamtaka gegni fyrst og fremst ráðgjafarhlutverki en sé ekki ætlað að taka ákvarðanir sem lúta að stjórnun þjóðgarðs. Mikilvægast er að rödd hagsmunasamtaka heyrist á þessum vettvangi og að tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra við ákvarðanatöku. Hvað varðar ákvæði um þjóðgarðsráð í náttúruverndarlögum þá er gert ráð fyrir að skipan þeirra verði óbreytt en að hlutverkið verði útvíkkað eins og áður sagði.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hefur ákveðna sérstöðu þar sem hann er friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og undir stjórn Þingvallanefndar sem í sitja sjö alþingismenn kosnir af Alþingi. Gert er gert ráð fyrir óbreyttri skipan nefndarinnar.

Vatnajökulsþjóðgarði er í dag skipt í fjögur rekstrarsvæði, hvert með sitt svæðisráð. Í ráðunum sitja sex fulltrúar, þrír tilnefndir af sveitarstjórnum sveitarfélaga á viðkomandi rekstrarsvæði, einn tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum á svæðinu, einn tilnefndur af útivistarsamtökum og einn tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Formaður svæðisráða kemur úr hópi sveitarstjórnarmanna. Í frumvarpinu er lagt til að þetta fyrirkomulag verði óbreytt.

Við gerð frumvarps til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun var lagt upp með að setja einfalda og skýra lagaumgjörð utan um starfsemi stofnunarinnar og hlutverk hennar. Í frumvarpinu er að finna hefðbundin ákvæði um yfirstjórn ráðherra og skipan og hlutverk forstjóra nýrrar stofnunar, einnig um meginhlutverk stofnunarinnar auk þess sem sérstaklega er fjallað um svæðisbundin málefni.

Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er lagt til að starfsfólk viðkomandi stofnana sem lagðar eru niður njóti forgangs til þeirra starfa sem munu verða til með tilkomu nýrrar stofnunar. Tilgangur nýrrar stofnunar er fyrst og fremst að koma á fót faglega sterkri stofnun og er ávinningurinn þar margþættur. Markmiðið er því ekki að fækka störfum heldur má m.a. gera ráð fyrir auknum fjölbreytileika starfa. Gert er ráð fyrir að starfsfólk sem ræður sig hjá nýrri stofnun haldi þeim réttindum sem það hefur áunnið sér til námsleyfis og um lengdan uppsagnarfrest þegar kjarasamningar gera ráð fyrir að sá réttur miði við samfellt starf hjá sömu stofnun.

Verði frumvarpið að lögum tekur við umfangsmikil innleiðingarvinna við að koma á fót nýrri stofnun. Innifalið í slíkri vinnu er skipun forstjóra og ráðning annars starfsfólks, ákvörðun um húsnæði, vinna við skipurit og stefnu nýrrar stofnunar o.fl. Því er lagt til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2025. Samhliða því tekur Náttúruverndar- og minjastofnun við lögformlegu hlutverki sínu. Gert er ráð fyrir að fjöldi stöðugilda í nýrri stofnun verði um 120. Við gildistöku er gert ráð fyrir að lög um Umhverfisstofnun falli úr gildi og að sú stofnun verði lögð niður auk Minjastofnunar. Einnig að Vatnajökulsþjóðgarður og þjóðgarðurinn á Þingvöllum verði ekki lengur sjálfstæðar ríkisstofnanir, heldur hlutar af nýrri stofnun. Gert er ráð fyrir að sameiningin hafi í för með sér hagræðingu til lengri tíma sem nýtt verður til að efla nýja stofnun. Í henni felst m.a. samnýting á tækjum og búnaði, betri nýting fjármagns vegna sérhæfðra upplýsingakerfa, aukin samþætting og samlegð í stoðþjónustu, tækifæri til að draga úr húsnæðiskostnaði og aukin hagkvæmni í innkaupum.

Í því sambandi má nefna nýundirritaðan samning ráðuneytisins við Ríkiskaup um gæðamat og ráðgjöf á sviði opinberra innkaupa. Samningurinn felur í sér greiningu Ríkiskaupa á innkaupagögnum ráðuneytisins og stofnana þess og gæðamat á innkaupunum. Í gæðamatinu felst ráðgjöf um fylgni við lög, yfirsýn yfir sameiginlegar innkaupaþarfir og tækifærisgreining á innkaupum með áherslu á sjálfbærni og hagkvæmni. Eins og ég hef nú rakið skapar frumvarp um Náttúruverndar- og minjastofnun tækifæri til frekari einföldunar á núverandi stofnanakerfi, sem er til þess fallið að bæta þjónustu og auka skilvirkni. Það samræmist einnig skilaboðum í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá árinu 2021 um að mikilvægt sé að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til tillagna sem lagðar hafa verið fram í fjölda skýrslna um aukið samstarf og sameiningu ríkisstofnana. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa áhrif á útgjöld eða afkomu ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins en það er tvennt sem ég vildi bæta við í lokin. Í fyrsta lagi hafa komið upp í umræðum um þetta mál áhyggjur af því að minjaverndinni sé ekki sinnt í nýrri stofnun. Það er ágætlega rakið í skýrslu, sem ég hvet hv. nefndarmenn sem um þetta mál fjalla að kynna sér, sem hv. þm. Birgir Þórarinsson veitti forstöðu, að það er mjög margt sem við getum bætt þegar kemur að minjavernd á Íslandi. Það er alveg sérmál og mikilvægt að við vinnum úr þeirri skýrslu sem er vel unnin og fékk mjög góðar viðtökur. Það er ekkert sem mælir með því að minjavernd sé gert hærra undir höfði í lítilli stofnun en í sameinaðri stofnun. Hins vegar er mjög mikilvægt að í stofnun sem þessari sé það eins tryggt og getur orðið að markmiðum, sem ég er sammála, sem koma fram í skýrslu hv. þm. Birgis Þórarinssonar verði náð. Við eigum að hafa betri tök á að gera það í stærri stofnun og öflugri stofnun en í því stofnanafyrirkomulagi sem er núna.

Ég held að hv. þingmenn ættu að skoða hugmyndir eins og t.d. þær að það verði skýrt í lögunum að forstjóri eða aðstoðarforstjóri — ef menn myndu koma slíku fyrir, því að ég held að það sé alveg ljóst að menn munu ræða þau mál vel — að annar hvor aðilinn, þótt það sé ekki tilgreint í frumvarpinu, ég er bara að velta upp hugmynd sem hefur komið fram í umræðum um þessi mál, þurfi að uppfylla þau faglegu skilyrði sem núverandi forstöðumaður Minjastofnunar þarf að uppfylla.

Að endingu vil ég nefna, vegna þess að það er vel þekkt, að allir, held ég, eru sammála um það fyrirkomulag sem við höfum, sem er einfaldlega það að við erum með 165 ríkisstofnanir í okkar þjóðfélagi. Ég hef ekki heyrt neinn einstakling segja að það eigi að fjölga þeim eða að það sé skynsamlegt að hafa svo margar. Þær skýrslur sem hafa verið skrifaðar um mikilvægi þess að sameina þær, efla, styrkja, eru óteljandi og það er enginn sem vill fara til baka mér af vitandi; að fjölga tollstjórum aftur, skattstjórum, lögreglustjórum, forstjórum lítilla heilbrigðisstofnana. En hins vegar er það alltaf þannig þegar menn koma fram með hugmyndir sem þessar — í þessu tilfelli eru þær vel unnar og hafa mikla vinnu og sögu á bak við sig — eins og ég hef sagt opinberlega, þá koma allir smákóngar heimsins fram og þeir segja allt rétt og satt: Við þurfum að sameina stofnanir. Við þurfum að styrkja þær. Það er óskynsamlegt að hafa þær margar en bara ekki breyta hjá mér. Svo tilgreina menn allra handa rök fyrir því sem stundum hefur ekki verið hlustað á. Menn hafa farið í það að skerpa á stofnanafyrirkomulaginu, sameina og efla og gera betri stofnanir. En síðan er það stundum svo að svona mál nái ekki fram út af slíkri andstöðu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, í þessu máli að þær athugasemdir sem hv. þingmenn hafa, að menn sýni á spilin hvað það varðar, taki þá umræðu. Ég hef nú nokkra reynslu af því að koma fram með hugmyndir sem þessar og sem betur hefur það oft gengið upp. En stundum er það þannig að menn koma ekki fram, hvorki í þingsal né opinberlega, og taka umræðuna, heldur er það meira gert í bakherbergjum. Ég get t.d. tekið sem dæmi svokallað sendiherrafrumvarp, sem varð sem betur fer að lögum, sem öll stjórnarandstaðan barðist gegn en hvergi opinberlega, kom hvergi fram í þingsal og tók þá umræðu en gerði það með öðrum hætti. Sem betur fer náðist það mál í gegn og nú er ekki lengur um það að ræða að við höfum tugi æviráðinna sendiherra sem var vont fyrir utanríkisþjónustuna og vont fyrir Stjórnarráðið og vont fyrir hagsmunagæslu Íslands.

Ég geri engar athugasemdir við það að einhver hafi athugasemdir, komi fram með málefnalega athugasemd við þetta. Ég bið bara um að menn taki umræðuna, hvort sem það er í þessum þingsal eða í fjölmiðlum eða hvar það er, því að ég held að það sé líka mjög gott fyrir alla þá sem eru að velta fyrir sér: Af hverju erum við enn þá með þennan fjölda stofnana, af hverju í ósköpunum þegar allir eru sammála um það og þegar allar þessar skýrslur segja að þær séu allt of margar? Af hverju klárar þingheimur ekki sameiningar stofnana þrátt fyrir allar skýrslurnar, allar úttektirnar, allan undirbúninginn — að þá komi þeir fram sem vilja vinna gegn því og taki þá umræðu þannig að kjósendur sjái nákvæmlega hvað er á ferðinni. Það held ég að sé gríðarlega mikilvægt og ég mun ekki veigra mér við að taka þá umræðu. Ég mun fagna henni og skiptast á skoðunum við alla þá sem vilja taka þá umræðu því að það er mjög mikilvægt.

Ég er alltaf spurður þessarar spurningar: Af hverju í ósköpunum eru sameiningar ríkisstofnana ekki kláraðar? Af hverju erum við með svona margar ríkisstofnanir? Ég veit ekki hvað aðrir hv. þingmenn heyra, ég fæ alltaf þessar spurningar. Það er úttekt eftir úttekt, hvort sem er frá Ríkisendurskoðun eða öðrum sem eru búnir að skrifa skýrslur og það sér það hver maður að þetta fyrirkomulag er alls ekki gott, alls ekki fyrir viðkomandi málaflokka eða stjórnkerfið í heild sinni. En samt gengur þetta svona hægt eins og raun ber vitni.

Ég vona það og treysti því að þetta mál fái góða umfjöllun og auðvitað eiga menn að rýna þetta eins og öll mál, til þess eru þingnefndir, og koma með athugasemdir. En ég held líka að það skipti gríðarlega miklu máli að það sé gert fyrir opnum tjöldum eins og mögulegt er þannig að menn taki bara umræðuna þannig að maður geti þá útskýrt fyrir þeim sem spyrja: Af hverju gengur þetta svona hægt? Af hverju er andstaða við ákveðin mál eins og sameiningar stofnana sem allir eru sammála um og búnir að vera það í, ekki ár heldur áratugi og endalausar skýrslur um það? Af hverju klárast þessi mál ekki?

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.