154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

uppfærsla samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins .

[10:54]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið um langt skeið og var gert samkomulag 2010 um ákveðinn stuðning ríkisins við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, um milljarður króna á ári. Við framlengdum hann í síðustu samgönguáætlun og hann hefur verið inni í fjármálaáætlun. Það hafa verið viðræður við sveitarfélögin hérna á höfuðborgarsvæðinu núna um nokkuð langt skeið. Við vorum tilbúin með samninga af hálfu ríkisins fyrir margt löngu sem sveitarfélögin hafa ekki verið tilbúin að taka og hafa óskað eftir frekari viðræðum. Þær eru bara í gangi og þær munu auðvitað halda áfram. Þær eru ekki beint hluti af uppbyggingu sáttmálans því þar er fyrst og fremst verið að tala um uppbyggingu á stofnbrautum og þeim meginleiðum sem þarf til að almenningssamgöngur og fjölbreyttir ferðamátar gangi upp. Hitt er í raun og veru viðbótarstuðningur og mætti kannski tengja þá frekar við það að við ætlum að reyna að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum.