154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við deilum þessari praktísku, pragmatísku nálgun á þessi mál. Ég held að það sé alveg ljóst að þessi 15. gr. samkeppnislaga hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt í upphafi. Við í Samfylkingunni heyrum mjög hávært ákall um allt land, það er nánast sama hvaða bændur við tölum við, um að það verði veittar auknar heimildir til samstarfs og hagræðingar og aukinnar verkaskiptingar. Þess vegna finnst mér ákaflega vont að þetta mál sé komið á þennan stað, að það séu í rauninni svona margar spurningar sem standa út af. Ég held að það færi best á því að nefndin fjallaði betur um þetta einmitt til þess að geta náð eins breiðri sátt og mögulegt er um þessa pragmatísku nálgun sem mér heyrist við vera sammála um, um auknar heimildir til samstarfs, verkaskiptingar og hagræðingar, að við séum með belti og axlabönd og tryggjum að þetta skili sér bæði til bænda og neytenda, að við séum með ákveðna varnagla í þágu neytenda og að þetta sé gert á forsendum þessara heildarhagsmuna.