154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:22]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég taldi mér rétt og skylt að taka hér til máls svona á lokametrum þessa frumvarps sem hefur, það er rétt sem komið hefur margítrekað fram, tekið verulegum breytingum í meðförum atvinnuveganefndar þar sem ég sit og ég hef tekið fullan þátt í þeim breytingum og vinnu nefndarinnar sem er leidd af miklum skörungsskap af Þórarni Inga Péturssyni. Ég var sannfærður um það þegar við hófumst handa við vinnu þessa frumvarps að það væri eins og það leit út í upphafi í besta falli gallað og í versta falli yrði það ekki til að ná neinum þeim markmiðum sem að var stefnt í frumvarpinu, sem voru að stuðla að aukinni hagræðingu við vinnslu íslenskra landbúnaðarafurða, hvort heldur er í lambakjöti, nautakjöti eða hvítu kjöti. Í rauninni hefði frumvarpið eins og það birtist upphaflega ekki með neinum hætti stuðlað að eða greitt fyrir hagræðingu á neinum öðrum markaði heldur en hvítu kjöti og það skal játað hér, frú forseti, að það er kannski sá markaður sem ég hef einna minnstar áhyggjur af þegar kemur að íslenskum landbúnaði.

Er það frumvarp eins og það lítur út frá hendi meiri hluta atvinnuveganefndar fullkomið? Nei. Eru til aðrar leiðir til þess að byggja undir og tryggja það að við náum hagræðingu sem allir eru sammála um? Ég held að það sé þó eitt gott við alla þessa umræðu, bæði við 2. umræðu og hér í 3. umræðu, að mér virðist vera einhugur meðal þingmanna um að við þurfum að tryggja það að við náum hagræðingu í íslenskum landbúnaði, að við styðjum við viðleitni bænda og þeirra afurðastöðva sem vinna afurðir bænda, viðleitni þeirra til að auka hagræði, styrkja þar með rekstrargrunn íslenskra bænda og hag neytenda. Við erum öll sammála um það en okkur getur greint á um leiðir.

Ég er sannfærður um það að við stöndum frammi fyrir því að vegna aðstæðna þá muni hér skapast þær aðstæður á komandi árum vegna erfiðleika í rekstri afurðastöðva að þeim muni fækka sjálfkrafa með gjaldþrotum eða vegna þess að viðkomandi telji ekki lengur vera rekstrargrundvöllur til staðar og loki og hér verði kannski tvær ríkjandi afurðastöðvar sem hafi í rauninni engum lögbundnum skyldum að gegna, hvorki gagnvart bændum né neytendum.

Þetta var meginmarkmiðið og ásetningur minn við vinnu þessa frumvarps, að reyna að tryggja það að sú hagræðing sem við viljum koma á verði með þeim hætti að þær afurðastöðvar sem eftir standa hafi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart sérstaklega bændum, líka öðrum kjötvinnslustöðvum og neytendum. Þess vegna eru þessi ítarlegu skilyrði sett inn í frumvarpið sem ég vek alveg sérstaklega athygli á. Það er í fyrsta lagi að framleiðendafélög sem ætla að nýta sér ákvæði þessa frumvarps, verði það að lögum, verða að safna afurðum frá framleiðendum, þ.e. bændum, á grundvelli sömu viðskiptakjara. Þau verða að selja öðrum vinnsluaðilum, kjötvinnslum, afurðir til frekari vinnslu á grundvelli sömu viðskiptakjara og dótturfélögum eða öðrum félögum sem framleiðendafélagið eða afurðastöðin hefur yfirráð yfir. Þeim er bannað að setja skorður við því að framleiðendur, þ.e. bændur, færi viðskipti sín til annarra aðila. Og það á að tryggja öllum framleiðendum, bændum, rétt til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun og hlutun. Þetta þýðir t.d. að bændur eru tryggir þegar kemur að því að geta tekið kjötið aftur til sín beint frá býli og byggt upp lítil viðskipti í þeim efnum. Meiri hluti atvinnuveganefndar leggur svo til að Samkeppniseftirlitið fari með eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða. Samkeppniseftirlitið á að fara með eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða, að það sé tryggt að afurðastöðvarnar vinni samkvæmt þeim skilyrðum sem meiri hluti atvinnuveganefndar setur.

Ég er sannfærður um að það er betra að fara þessa leið heldur en að gera ekki neitt og horfa upp á það að hér myndist fákeppnismarkaður með einum eða tveimur aðilum sem verða ekki með nein skilyrði á herðum, engin skilyrði þegar kemur að viðskiptum við bændur, engin skilyrði við aðrar kjötvinnslur o.s.frv. Hefði ég viljað fara aðra leið? Já, ég hefði viljað fara aðra leið. Ég hef lengi talað fyrir því að mér finnst skynsamlegt að þær undanþágur sem taldar eru nauðsynlegar að gildi um landbúnað, líkt og flest öll önnur lönd gera, séu skrifaðar með beinum hætti inn í samkeppnislögin. Ég fæ hins vegar engan hljómgrunn fyrir þessari hugmynd. Það er líka alveg ljóst að það er mikil og djúpstæð fyrirstaða fyrir þessari leið, m.a. hjá Samkeppniseftirlitinu sem telur að það sé skynsamlegra ef á annað borð eigi að veita einhverjar undanþágur frá samkeppnislögum að skrifa það inn í búvörulögin. Ég er ósammála þessu mati, ég er algjörlega ósammála því. En þetta er veruleikinn sem ég bý við, sá pólitíski veruleiki, og af einhverjum þeim kostum, greinilega enginn sá albesti í mínum huga, er þetta skásti kosturinn.

Ég er sannfærður um það að ef þetta frumvarp nær fram að ganga þá muni hagur bænda verða betur tryggður heldur en að óbreyttu, hagur neytenda verða betur tryggður heldur en að óbreyttu og hagur sjálfstæðra kjötvinnslustöðva sem fullvinna afurðir verða miklu betur tryggður, miklu betur. Þess vegna held ég að við eigum að hafa burði til þess að stíga þetta skref og ég er sannfærður um að það muni koma í ljós að það hafi verið skynsamlegt. Þetta er ekki fullkomin leið, langt í frá fullkomin leið, en hún er sú skynsamlegasta sem við eigum nú kost á að fara.

Auk þess má í lokin, frú forseti, benda á að við teljum rétt að matvælaráðherra flytji skýrslu, alþingisskýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði hagfræði og samkeppnisréttar um reynsluna af framkvæmd þessara laga. Og komi það í ljós, vegna þess að það er auðvitað ekki útilokað, að ýmsir gallar séu við framkvæmd þessara laga þá er það hlutverk og skylda Alþingis að grípa þar inn í. Þá er það hlutverk og skylda Alþingis að grípa þar inn alveg eins og ég lít á það sem hlutverk og skyldu Alþingis að reyna að tryggja það að þróunin verði ekki með þeim hætti að hér verði fáeinir aðilar, einn eða tveir, ráðandi í rekstri afurðastöðva og bændur sitji hjá og beri skarðan hlut og neytendur borgi brúsann.