154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[13:19]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að mér þykir undarlegt að ef það á að lækna eitthvert mein þá eigi að búa til enn meira mein, búa til einokun. Ég held og er í rauninni viss um að þetta muni ekki leiða til góðs. Menn verða einfaldlega að horfast í augu við að þessi samþjöppun sem hefur orðið hefur ekki bætt hag bænda. Það er í raun alvarlegt hvað samkeppnin er orðin lítil og mikil krosseignatengsl. Það hefði í raun þurft að fara fram nánari greining á t.d. tengslum smásölunnar við stóru peningana í landinu. Þetta er orðið vandamál. Ég deili því með hv. þingmanni að þessir auðhringir sem hér búa um sig í fákeppni, í sjávarútvegi sérstaklega, eru farnir að eitra aðra markaði, farnir að eitra neytendamarkaðinn. Það verður þá verkefni, tel ég vera, þingsins á komandi árum að brjóta þetta eitthvað upp.

Ég vara eindregið við þeirri leið að ætla að leysa úr vandamálum sem snúa að fákeppni með því að búa til einokunarfyrirtæki. Það er verið að opna leið að því með þessu frumvarpi og sporin hræða. Ef menn líta í reynsluna, hvort hagur bænda hafi vænkast á síðustu árum, þá getur hv. þingmaður eflaust svarað því mun nánar en sá sem hér stendur.