154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[14:40]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hið upphaflega frumvarp sem hér kom fram frá hæstv. matvælaráðherra gekk út á það og hafði þann yfirlýsta tilgang að bregðast við erfiðri stöðu í sláturiðnaði, einkum sauðfjár- og stórgripaslátrun. Það var meginþunginn í greinargerð frumvarpsins. Ég hef tekið eftir því hér í dag að það er mjög breið pólitísk samstaða um að það þurfi að innleiða ákveðnar undanþágur frá samkeppnislögum fyrir þessar greinar landbúnaðarbúnaðarins sem eru í hvað mestum rekstrarerfiðleikum, þar sem afkoma bænda er einna verst. Við í Samfylkingunni höfum stutt það að hér sé komið á sambærilegum starfsskilyrðum og eru fyrir hendi í ýmsum öðrum Evrópuríkjum, m.a. Norðurlöndunum, að þessu leyti. Hins vegar er það þannig að hér er verið að lögfesta (Forseti hringir.) talsvert víðtækari undanþáguheimildir heldur en þörf er á til að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Þess vegna getum við því miður ekki stutt þetta. Mér finnst leiðinlegt að horfa á atkvæðatöfluna af því að ég held að ef frumvarpið hefði fengið aðeins lengri umfjöllun hérna á þingi (Forseti hringir.) hefði verið hægt að ná miklu breiðari sátt um aðgerðir til að ná þessum mikilvægu markmiðum í þágu bæði bænda og neytenda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)