154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

flutningur höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina.

136. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um flutning höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina. Nokkrir meðflutningsmenn eru með mér, hv. þingmenn Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi Pétursson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon og Eyjólfur Ármannsson.

Tillagan sjálf felur í sér að Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stefna að flutningi höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og að kanna á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar Rariks um landið.

Þetta er í þriðja sinn sem undirrituð leggur þetta mál fram. Rarik ohf. er opinbert hlutafélag sem stofnað var 1. ágúst 2006 og tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Meginhlutverk Rariks ohf. er að afla raforku og dreifa henni með hagkvæmum hætti til almennings og atvinnulífs. Um 90% af dreifikerfi raforku í landinu eru í umsjón félagsins, m.a. í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, þó ekki á Reykjanesskaga og Vestfjörðum, en hér eru höfuðstöðvarnar. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Mikilvægi Rariks ohf. fyrir samfélagið í heild er óumdeilt.

Höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík og Rarik ohf. er vinnuveitandi rúmlega 200 starfsmanna sem starfa víða um landið. Af þeim starfa rúmlega 60 manns á höfuðborgarsvæðinu. Mikill meiri hluti opinberra stofnana og hlutafélaga er á höfuðborgarsvæðinu og sömuleiðis eru flestar höfuðstöðvar opinberra stofnana og hlutafélaga þar. Þetta leiðir til þess að yfirgnæfandi fjöldi opinberra starfa stendur einungis einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu eða í nærliggjandi byggðum til boða, eðli málsins samkvæmt.

Í IX. kafla grundvallarstefnuskrár Framsóknarflokksins kemur fram að flokkurinn telji það til grundvallarmannréttinda að fólki sé kleift að velja sér búsetu á landinu þar sem það kýs. Til þess að uppfylla það markmið þarf að tryggja ákveðin búsetuskilyrði um allt land. Með því er m.a. átt við að tryggð séu fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land. Með dreifingu opinberra starfa, t.d. í höfuðstöðvum Rariks ohf., myndi hið opinbera stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land. Á þann hátt er hægt að jafna búsetuskilyrði og gera fólki kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs ásamt því að koma í veg fyrir mismunun sem gerir greinarmun á fólki eftir búsetu.

Eins og nefnt er að framan hefur Rarik ohf. umsjón með 90% af dreifikerfi raforku í landinu, en það nær til Vesturlands, Norðurlands, Austurlands og Suðurlands og 43 þéttbýliskjarna víðs vegar um landið. Af þessu er ljóst að starfsemin er viðamikil og dreifð um allt land. Finna má bækistöðvar félagsins m.a. á Selfossi, Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Siglufirði og í Ólafsvík. Þó eru höfuðstöðvar félagsins í Reykjavík. Núverandi staðsetning höfuðstöðvanna er ekki talin endurspegla starfsemina jafn vel og hægt væri.

Þetta snýr líka að fjölbreytni starfa á landsbyggðinni. Fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hefur lengi verið meginvandamál samfélaga á landsbyggðinni. Meðal helstu ástæðna fólksfækkunarinnar er skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Atvinnuöryggi og fjölbreytni starfa tryggir stöðugleika í íbúafjölda, laðar frekar til sín nýja íbúa og stuðlar að því að ungt fólk snúi heim aftur eftir nám. Skortur á fjölbreytni skekkir hlutfall þeirra aldurshópa sem eru almennt virkastir á vinnumarkaðinum. Þetta leiðir til fækkunar íbúa sem hefur í för með sér skerðingu á útsvarstekjum sveitarfélaga.

Mikilvægt er að tryggja jöfn búsetuskilyrði um land allt. Með því að dreifa ríkisstörfum jafnt um landið er hægt að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri ásamt því að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Það er þó aðeins gert við rétt skilyrði, sem flutningsmenn telja vera fyrir hendi í tilviki flutnings Rariks ohf. á landsbyggðina.

Fyrir nokkrum árum eða áratugum, kannski fyrir aldamót, var talið heppilegast að opinberar stofnanir hefðu höfuðstöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem stutt væri á milli stofnana. Þetta var oft nefnt því að það þurfti að funda, fara með skilaboð og ráða ráðum sínum og hér voru kannski háskólarnir helst staðsettir og starfsmenn vildu setjast hér að. En með breyttri tækni hefur okkur verið þrykkt inn í alls konar breytingar. Ég er kannski ekki að tala um að flytja höfuðstöðvar í einu lagi og með einni tilskipun upp í Borgarnes eða á Selfoss heldur mætti líka styrkja þær starfsstöðvar sem eru á landsbyggðinni. Þegar komið hafa upp erfið tilfelli eins og aðventuveðrið 10. desember 2019, þegar norðanstórhríð geisaði á Norðurlandi og erfitt var og mikið rafmagnsleysi, voru staðir sem urðu lengur fyrir einangrun og rafmagnstruflunum þar sem vantaði starfsmenn Rariks á svæðið. Það er mjög erfitt að vera kannski með eina starfsstöð þar sem starfar kannski einn eða tveir. Þá þarf ekki nema að annar fari í veikindafrí og starfsstöðin er hálflömuð. Það mætti frekar virkja þessar starfsstöðvar vítt og breitt um landið. Þetta er ekki gert með einu pennastriki, það er hægt að gera þetta smátt og smátt. Ég held að það sé mjög mikilvægt, enda var fjallað um það eftir aðventuveðrið 2019, að styrkja starfsstöðvarnar á landsbyggðinni. Einmitt eftir það óveður fékk maður ákall frá þeim stöðum þar sem starfsmaður Rariks var að hætta, starfsmaðurinn. Hver átti þá að sjá um bæði eftirlitið og að slá inn varaaflinu og annað slíkt? Því er alltaf betra að styrkja og það er hægt að skipta því upp með einhverjum hætti á einhverju tímabili. Það er bara þannig að meginstarfsemin fer fram á landsbyggðinni og því er ekki óeðlilegt að höfuðstöðvarnar eða stjórnstöðvarnar séu þá í þéttu neti á landinu öllu.