154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

Störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. „Gera þarf lífeyriskerfið gagnsærra og halda áfram að minnka vægi skerðinga innan þess. Kerfið á að styðja við virkni og atvinnuþátttöku fólks og má ekki undir neinum kringumstæðum halda öryrkjum í fátæktargildru.” Svo hljóðar ályktun um málefni fatlaðs fólks og öryrkja frá Vinstri grænum frá 28. ágúst 2021. Það má ekki undir neinum kringumstæðum halda öryrkjum í fátæktargildru.

Endurskoðun almannatryggingalaga var hér til umræðu í gær. Einstaklingur, 45 ára, fær 363.000 kr. útborgaðar og þarf að borga 320.000 kr. í leigu. Leigan var að hækka úr 260.000 í 320.000 og hann á eitthvað um 40.000 kr. eftir plús leigubætur. Þegar búið er að borga rafmagn og hita og annað þá er hann að reyna að tóra á 2.000 kr. á dag. Frábært. Hver vill ekki hafa 2.000 kr. á dag fyrir öllum nauðsynjum? En þeir eru búnir að leysa þennan vanda. Í nýja endurskoðaða almannatryggingakerfinu fær þessi einstaklingur í heila hækkun á mánuði 803 kr. Vá, 803 kr., 26 kr. á dag. Er þetta ekki frábært? Geggjað. Hann hlýtur bara alveg að hoppa af kæti og hlaupa út í búð og kaupa bara lúxusfæði. Nei. Síðan er 18 ára einstaklingur sem er fatlaður. Hvað fær hann? Aðeins betra, 4.020 kr. í hækkun á mánuði. Vá, heilar 4.020 kr. Svo spurði ég hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hvort þau sem eru að reyna að tóra í almannatryggingakerfinu fengju 25.000 kr. hækkun frá 1. febrúar núna strax eins og aðrir launamenn. Nei, ekki aldeilis, hann svarar því ekki, vegna þess að það á ekki að fá neitt fyrr en næstu áramót og þá verður búið að þynna það út þannig að þau mega þakka fyrir að fá helminginn af því sem þau fengu áður.