154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:28]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er nú einn af þeim þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem eru einmitt með á þessu máli hjá hv. þm. Jódísi Skúladóttur. Mig langaði kannski bara af þessu tilefni að geta þess að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta frumvarp er flutt hér á þinginu, enda hafa systurflokkar okkar á Norðurlöndum líka flutt sambærileg frumvörp og ég m.a. ásamt mínum félögum á vettvangi Norðurlandaráðs er þar einn af höfundum tillögu sem miðar að þessu sama, þ.e. að ríkisstjórnirnar á Norðurlöndunum sameinist um þessa stefnu, þessa sýn, að takmarka og koma í veg fyrir umferð kjarnorkuknúinna farartækja og ferðir með kjarnorkuvopn á okkar yfirráðasvæði.

Þessu tengt, af því að hér bar hernaðarbandalagið NATO á góma áðan, sat ég í gær í Norræna húsinu í mjög áhugaverðu pallborði í tilefni af degi Norðurlandanna sem við munum fagna öll hér á morgun, hér er búið að reisa fánastangir fyrir utan Alþingishúsið að venju til að fagna því, þar sem eðli málsins samkvæmt bar á góma að nú er sú staða uppi að öll Norðurlöndin eru þátttakendur í NATO og komin saman á þeim vettvangi og þeirri spurningu velt upp hvort í því fælust einhver tækifæri. Ég velti því upp, vegna þess að utanríkispólitík landanna hefur verið mismunandi, ekki öll löndin í Evrópusambandinu, tvö þeirra, við og Norðmenn, ekki innan Evrópusambandsins en á vettvangi EES-samningsins eða eru aðilar að honum, og nú öll saman í NATO, hvort það felist í því einhver tækifæri fyrir norrænu þjóðirnar, sem hafa löngum byggt samskipti sín á friðsamlegum forsendum, í árhundruð, unnið þétt og örugglega saman, við fögnum jú þessu samstarfi. Getum við einhvers staðar bundist frekari höndum saman, til að mynda á vettvangi NATO? Ég velti því upp: Hvað er því til fyrirstöðu að norrænu þjóðirnar taki höndum saman með sinn skilning og sína reynslu og þekkingu og getu í að vinna á friðsamlegum grunni og myndi einhvers konar friðarblokk í NATO? Það hefur ekki mátt ræða það að vera með einhverja sérstaka blokkamyndun á vettvangi þess bandalags en ég velti því upp í því samhengi þar og fékk nú ágætisundirtektir við þessa hugmynd að kannski væri kominn sá tími, og þá tækifæri núna, þegar allar þjóðirnar væru þarna aðilar, að standa saman og tala fyrir friðsamlegum málum. Það veit ég að okkar forsætisráðherra, sem er auðvitað bundin eins og við öll af þjóðaröryggisstefnu Íslands, hefur gert. Það er staðreynd að við erum aðilar að NATO. Sá sem hér stendur tilheyrir hreyfingu og er sjálfur mótfallinn því að við séum það en fyrst svo er þá eigum við að beita áhrifum okkar og það veit ég að hæstv. forsætisráðherra hefur gert. Ég er henni afar þakklátur fyrir það fyrst svona er í pottinn búið og ég held að það gæti aukist slagkrafturinn á þeim vettvangi með öðrum þjóðarleiðtogum á Norðurlöndunum að nýta nú samstöðu sína sem 11. stærsta hagkerfi heims til þess að tala fyrir friði og friðsamlegum lausnum í heiminum á vettvangi þess bandalags.

Ég vildi bara stuttlega koma inn í þetta, virðulegi forseti, í framhaldi af þeim umræðum sem hér sköpuðust um annars ágætt frumvarp sem ég vona svo sannarlega að nái fram að ganga.