154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú verður fjármálaáætlun lögð fram innan fárra daga og þar svörum við þessum stóru spurningum og að sjálfsögðu ætlum við að standa við það sem ég er nýbúinn að segja, þ.e. að standa með þeirri þróun sem þegar er hafin við að verðbólgan lækki, eins og Seðlabankinn sjálfur gerir ráð fyrir, niður undir um 4% á þessu ári. Það er Seðlabankinn sjálfur, sem hv. þingmaður vísar til sem þess sem við eigum að horfa til leiðsagnar hjá, sem spáir þessu.

Nú, 80 milljarðarnir eru framlag okkar. Það felst annars vegar í því að standa við áætlanir sem við vorum áður búin að boða, t.d. í húsnæðismálum, og bæta um betur. Þannig að það er ekki um neitt 80 milljarða gat að ræða eins og hv. þingmaður er að spá fyrir um, heldur erum við búin að uppfæra áætlanir okkar. Við erum búin að gera ráðstafanir og forgangsraða og ætlum að leggja fram trúverðuga áætlun sem styður við lækkun verðbólgunnar, (Forseti hringir.) lágar skuldir ríkissjóðs til lengri tíma og á endanum fullan jöfnuð í ríkisfjármálum.