154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu verður þessi ríkisstjórn eins og alla aðrar að forgangsraða og við höfum forgangsraðað mjög sterkt í þágu þess að hér sé stöðugleiki á vinnumarkaði og við mættum kröfum eftir því sem svigrúm var til í ríkisfjármálum til að tryggja farsæla niðurstöðu í kjarasamningum, sögulegum kjarasamningum, sem já, styðja við verðbólgumarkmið og eru til fjögurra ára. Þetta er stórmál. Þetta er stórmál fyrir verðbólguhorfur, fyrir heimilin og fyrir fyrirtækin þannig að það er ekkert að því og það er okkar hlutverk að forgangsraða fjármunum. En svarið við hinni undirliggjandi spurningu sem ég heyri formann Samfylkingarinnar bera hér upp, hv. þingmann, er: Nei, við ætlum ekki að hækka skatta. Það er ekki verið að gagnrýna útgjöldin, það er verið að gagnrýna ríkisstjórnina í sífellu fyrir að hækka ekki skattana og auka útgjaldastigið. Það er málflutningur Samfylkingarinnar hér í þinginu: Af hverju aukið ekki þið útgjöldin og sækið frekara fjármagn í vasa skattgreiðenda? Þetta eru tillögur Samfylkingarinnar í ríkisfjármálum ítrekað. Þetta er stefið sem alltaf er spilað aftur og aftur. (Forseti hringir.) Við ætlum ekki að hækka skatta vegna þess að við kunnum að fara betur en það með opinbert fé.