154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég hef nú staðið í sjö ár og hrópað fæði, klæði húsnæði við lítinn og ömurlegan hljómgrunn sitjandi þáverandi ríkisstjórnar og ekki held ég að það eigi eftir að skána. En þegar kemur að því að virða gildandi lög í landinu, lög og reglur, eins og í þessu tilviki stjórnsýslulög, þá situr annar ráðherra í þessari ríkisstjórn, matvælaráðherra, sem var líka búinn að fá ágætishanteringar frá umboðsmanni Alþingis þar sem hún hafði með reglugerð brotið gegn meðalhófsreglu og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og þar af leiðandi gengið þvert á svig við 75. gr. stjórnarskrárinnar sjálfrar um atvinnufrelsi. Og ég velti fyrir mér: Er það virkilega svo að þau skilaboð sem Alþingi Íslendinga er að senda út í samfélagið séu að það sé nóg ef þú ert tekinn á 100 km hraða á Toyotu, að segja bara: Fyrirgefðu, löggumann, ég ætla að kaupa mér Mazda. Er það virkilega svo að það sé í rauninni bara almenningur og þeir sem við erum að setja lögin fyrir sem þurfa að axla ábyrgð? (Forseti hringir.) Eru það bara þeir sem lögin gilda um og hafa einhverjar afleiðingar gegn? (Forseti hringir.) Eða eigum við að sýna það í verki að við virðum löggjöfina sem við erum sjálf að setja öllum öðrum til handa?