154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska ríkisstjórninni velfarnaðar í störfum sínum. Við þurfum á því að halda, öll þjóðin. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra og bendi honum á að Seðlabankinn lækkaði einmitt ekki vexti. Ein meginástæða þess síðast var sú að ríkisstjórnin skildi okkur eftir í óvissu um það hvernig ætti að fjármagna öll þau loforð sem hafa verið sett fram af hennar hálfu. En gott og vel. Nú reynir einmitt á samstöðuna í ríkisstjórn. Nýr fjármálaráðherra sagði hér fyrr í dag að hann væri ekki ráðherra niðurskurðar eða aðhalds. Ég er mjög fegin þeirri yfirlýsingu sem forsætisráðherra setti fram áðan að hann ætlaði ekki að hækka skatta. Þannig að þá kalla ég eftir: Hvernig á að sýna aðhaldið? Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Deilir hann þeirri sýn með nýjum fjármálaráðherra að fara ekki í þær aðgerðir að fara betur með fjármagn og fjármuni ríkisins eða sér hæstv. forsætisráðherra aðrar leiðir í þeim efnum?