154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta byrjar ekki alveg nægilega vel. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra ekki alveg vera raunveruleikatengdur. Við erum hér með heimili í samfélaginu sem geta vart brúað bilið, ekki náð endum saman út af þeim háu vöxtum, svimandi háum vöxtum, sem ríkisstjórnin ber m.a. ábyrgð á og herja af miskunnarleysi á íslensk heimili. Þrír fjármálaráðherrar á sex mánuðum — er það stöðugleikinn sem verið er að kalla eftir? Þetta er alger óreiða í boði m.a. Sjálfstæðisflokksins, og ég spyr: Hvernig má það vera að uppskriftin að þremur fjármálaráðherrum á sex mánuðum sé undirstaða fyrir stöðugleika fyrir íslensk heimili? Hvert er samhengið þar á milli? Þau fyrirtæki sem myndu skipta um fjármálastjóra þrisvar sinnum á hálfu ári myndu ekki ríða feitum hesti frá Kauphöllinni, þannig að ég spyr um heimilin í landinu: Hvernig geta þau treyst því (Forseti hringir.) að þessi tíðu fjármálaráðherraskipti gagnist raunverulega heimilum landsins og þau sjái fram á það að vextir muni lækka? (Forseti hringir.) Ég bið um samhengi.