154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[17:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég skal glaður játa að ég bind nokkrar vonir við hluta þeirra breytinga sem eru nú að eiga sér stað á ríkisstjórninni eftir það vandræðalega valdatafl sem hefur verið í gangi undanfarna daga. Þannig er t.d. alltaf til bóta að losa fjármálaráðuneytið við Sjálfstæðisflokkinn og verður spennandi að sjá hverju það breytir að hafa núna framkvæmd og fjármögnun borgarlínu í höndum ráðherra úr hinum stjórnarflokkunum. Þá eru það góð býtti að fá nýjan utanríkisráðherra en Bjarni Benediktsson hefur á sínum stutta tíma í því embætti náð að vera landi og þjóð ítrekað til skammar með viðbrögðum sínum við ástandinu í Palestínu.

Það eru hins vegar ansi kaldar kveðjur til fólks sem haustið 2021 taldi sig vera að greiða atkvæði lengst til vinstri að þeirra atkvæði séu núna mótorinn á bak við það að gera Bjarna Benediktsson að forsætisráðherra. Horfin er sú réttlæting sem forystufólk Vinstri grænna nefndi á sínum tíma, að besta leiðin til að temja gömlu valdahundana tvo í stjórnarsamstarfinu væri að hafa sósíalistann Katrínu Jakobsdóttur við borðsendann. Það skiptir máli hver stjórnar, var sagt. Nú dugar þeim að sitja í öðru aftursætinu með hægri valdahunda við stýrið.

Mig langar að víkja aðeins að stöðu þeirra kjósenda sem vildu styðja við grænu málin í síðustu kosningum. Mörg þeirra fundu sig hjá okkur Pírötum, studdu okkur með atkvæði sínu og hafa, að ég tel, fengið það sem þau báðu um: Heilsteyptan þingflokk sem fléttar grænu málin inn í allt sitt starf og þreytist ekki á að veita aðhald þar sem það er nauðsynlegt, en styður það sem vel er gert.

Sumir grænu kjósendurnir keyptu hins vegar köttinn í sekknum. Þau settu X-ið sitt við V. Ég man eftir ótal samtölum í síðustu kosningabaráttu við kjósendur sem lentu á úthringilista Vinstri grænna þar sem þeim var seld hugmyndin að VG væri besta leiðin til að tryggja grænu málin í næstu ríkisstjórn. Það skipti nefnilega máli hver stjórnaði. Þetta hlustaði fólk á, treysti og tók mark á og þakkirnar sem þessir kjósendur fengu strax eftir kosningar voru þær að atkvæði þeirra, sem voru undir áhrifum umhverfismála, fleyttu Sjálfstæðisflokknum inn í umhverfisráðuneytið. Og hvernig gengur það? Á þessu kjörtímabili hefur lítið sem ekkert heyrst frá ráðuneyti umhverfismála annað en þráhyggjulegt stagl ráðherrans á því að nýjar virkjanir séu það eina sem geti leyst loftslagsvandann. Án þess reyndar að þessi sami ráðherra hafi nokkuð gert til að lögfesta t.d. forgang orkuskiptaverkefna til raforku. Það er ansi holur hljómur í botnvirkjunarsöngli ráðherrans þegar ekkert annað er gert.

En þegar litið er yfir beinar aðgerðir í loftslagsmálum fallast manni hendur. Helst ber að nefna að markmið stjórnarsáttmálans um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ganga einfaldlega allt of skammt. Hér kristallast vandinn við það að hafa smalað grænum atkvæðum inn til flokks sem segist vera með göfug markmið í loftslagsmálum, en dregur síðan þessi sömu atkvæði lóðbeint aftur í að styðja samstarf með þeim flokkum sem eru fullkomlega metnaðarlausir í loftslagsmálum. Hvernig virka málamiðlanir á milli flokka í því samhengi? Hvernig er hægt að ná pólitískri málamiðlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, viðfangsefni sem snýst í grunninn bara um grundvallarnáttúrulögmál? Nei, náttúran hlustar ekkert á svona málamiðlanir.

Hér kristallast líka sú staðreynd að þessari ríkisstjórn nægir ekki lengur að vera gjörsamlega gagnslaus heldur er hún orðin beinlínis skaðleg. Sinnuleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart aðgerðum í loftslagsmálum er orðið hættulegt. Þó að ríkisstjórnin hafi eftir síðustu kosningar samþykkt að auka í orði kveðnu metnað sinn í loftslagsmálum, þá er hún enn að spila eftir úreltri handbók, fjögurra ára gamalli aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Áætlun frá síðasta kjörtímabili er enn þá grundvöllur aðgerða ríkisstjórnarinnar. Til að auðvelda verkið var síðan skipunartími loftslagsráðs, sem á að veita stjórnvöldum ráðgjöf og aðhald, látinn renna út síðasta sumar þannig að ráðherrann getur haft það náðugt og fengið að eiga eigið aðgerðaleysi óáreittur.

Tölurnar eru allar á einn veg: Ríkisstjórninni er ekki að takast að ná neinum árangri. Nýjustu tölur yfir losun gróðurhúsalofttegunda sýna að losunin er nánast nákvæmlega sú sama og hún var áður en ríkisstjórnin tók við. Svo ég nefni tölurnar bara: Árið 2016 var samfélagslosun 4.686 tonn. Árið 2022 var hún komin niður í 4.666 tonn. Þetta er lækkun um hálft prósent. En losunin hefur síðan vaxið síðustu þrjú ár. Það ætti ekki að þurfa að nefna það, en kannski ráð að gera það: Veit ríkisstjórnin ekki örugglega að markmiðið er að draga úr losun? Það skiptir máli hver stjórnar.

Það blasa við svartar tölur í uppgjöri loftslagsaðgerða ríkisstjórnarinnar og mikil þörf á því að gera miklu betur en því miður virðist stefnan vera frekar í hina áttina. Í fjárlögum yfirstandandi árs var ákveðið að draga úr framlögum til loftslagsmála um 6 milljarða kr. Hvernig lýsir það metnaði?

Þegar við ræðum þessa stöðu hér í dag er nýfallinn úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem niðurstaðan í máli gegn svissneskum stjórnvöldum var sú að með aðgerðaleysi sínu hefði svissneskan ríkið brotið mannréttindi fólks. Staðan er litlu skárri hér á landi og vonandi að ríkisstjórnin fari að vakna til lífsins þegar hún áttar sig á því að það er ekki bara við okkur í pólitíkinni að etja heldur Mannréttindadómstól Evrópu.

Vandræðalegast er náttúrlega að lausnin, uppskriftin að árangri í loftslagsmálum, (Forseti hringir.) er ekkert flókin. Hér þarf einfaldlega ríkisstjórn þar sem flokkar með metnað í umhverfis- og loftslagsmálum (Forseti hringir.) sýna þá skynsemi sem VG skorti árið 2021 og mynda ríkisstjórn með öðrum flokkum sem styðja við þau sömu áform til að hámarka þann árangur sem hægt er að ná.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða umsaminn ræðutíma ).