154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[17:16]
Horfa

María Rut Kristinsdóttir (V):

Frú forseti. Það eru auðvitað viðeigandi að óska þjóðinni til hamingju með að hafa eignast spánnýja ríkisstjórn, ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þetta er svona ríkisstjórn sem er svolítið eins og hljómsveitin sem enginn klappaði upp en mætir samt sem áður aftur á sviðið en nú undir þeim formerkjum að þetta sé ríkisstjórn hins breiða samhengis, eins og það var orðað í vikunni. Ég veit reyndar ekkert hvað það þýðir en kannski mun ríkisstjórn hins breiða samhengis sjá sóma sinn í því að taka almennilega til í ríkisfjármálunum svo að hægt sé að lækka hér vexti og verðbólgu, sem hlýtur í öllu samhengi að vera forgangsmál okkar allra. Kannski sér hún tækifæri í því að fjárfesta í geðheilbrigði og fjármagna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu og grípa unga fólkið okkar sem samkvæmt öllum mælingum líður ekki nógu vel. Það er eitthvað sem við ættum öll að hafa áhyggjur af.

Já, svo nær ríkisstjórnin kannski að koma í veg fyrir læknaskortinn sem ógnar öryggi og heilsu landsmanna og nær tökum á öllum þeim ótal biðlistum sem eru alltumlykjandi í samfélaginu okkar. Þeir eru raunverulegt vandamál. Ég vona líka að þjónusta við fólk verði raunverulega tryggð. Svo getur maður auðvitað leyft sér að vona að menntun barnanna okkar verði sett í forgang, svona raunverulega, ekki bara í orði heldur líka á borði.

Og kannski, bara kannski, segi ég, tekur hún með endurnýjuðum utanríkisráðherra almennilega afstöðu og beitir sér fyrir því að senda afdráttarlausa kröfu um vopnahlé og langtímalausn á hryllilegri stöðu á Gaza þar sem þúsundir barna og almennir borgarar hafa verið myrt. Það mál snýst ekki um vinstri eða hægri, það snýst um mennsku og mannréttindi. Við vitum að þegar kemur að mannréttindamálum þá er íslensk rödd mikilvæg og hún vegur þungt.

Svo vona ég að ríkisstjórnin hlúi að fjölbreytileikanum í samfélaginu okkar, að hún hugsi vel um jaðarsetta hópa og passi það að skautun í samfélaginu stuðli ekki að því að þeir verði enn jaðarsettari.

Forseti. Það væru svo sannarlega algjörlega frábærar fréttir ef stólaleikur ríkisstjórnarinnar síðustu daga hefði raunverulega leyst þá ótrúlegu krafta úr læðingi að skyndilega sé ríkisstjórnin svo verkþyrst að hún geti hreinlega ekki beðið eftir því að hefjast hér handa og vinna fyrir almenning í landinu. Núna eigum við sem sagt að trúa því að þeim takist að leysa stóru ágreiningsmálin sín á einu ári þegar þeim hefur ekki tekist það á sjö. Trúir þessu einhver?

Forseti. Hjarta mitt er fullt af efa, það er bara þannig, því að við höfum lært það á síðustu sjö árum að þú stjórnar ekki landinu með einhverjum vel skreyttum glærusýningum eða blaðamannafundum, hvað þá misgóðum stólaleikjum eða lyklaskiptum. Við þurfum ákvarðanir og stjórn í landinu fyrir fólkið okkar sem setið hefur á hakanum allt of lengi.