154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[17:30]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú líður að lokum þessarar umræðu. Þetta er eina málið á dagskrá dagsins í dag. Ég vil segja fyrir mitt leyti að það var eðlilegt að það tæki ríkisstjórnarflokkana nokkra daga að bregðast við þeim óvænta atburði að forsætisráðherra bæðist lausnar og færi í forsetaframboð. Margir hafa mikið úr því gert að það tæki nokkra sólarhringa að skipta verkum með ríkisstjórninni að nýju og skerpa á áherslum fyrir það u.þ.b. eina og hálfa ár sem eftir lifir af kjörtímabilinu en í mínum huga hefur þetta verið í mjög traustum farvegi. Í þessari viku hafa fallið niður þingfundir og þetta er eina mál dagsins í dag. Það var gott að þessi umræða var tekin, hún er nú að klárast og í framhaldinu þarf að hefjast handa við að vinna niður lista þingmála sem hér hafa verið lögð fram og eru mörg hver langt á veg komin í þingnefndum.

Mig langar til að gera það örstutt að umtalsefni að hér hefur verið skipst á skoðunum og það er eðlilegt hér í þinginu að það séu skiptar skoðanir um veginn fram á við, hvaða leið eigi að fara í átt að bættum lífskjörum og öryggi landsmanna allra. Það liggur í hlutarins eðli að þessi lýðræðisvettvangur sem þingið er bjóði upp á umræðu þar sem skipst er á skoðunum en það er eins og sumir haldi að þegar skipst er á skoðunum sé allt í háalofti, að þá sé eitthvað að; að þegar ólíkir flokkar takast á um veginn fram til bættra lífskjara þá sé það merki um einhverja óstjórn eða óstöðugleika. Þetta er þvert á móti. Við erum frjáls þjóð, lýðræðisþjóð með góð gildi og bjóðum upp á öryggi fyrir borgarana umfram það sem víðast gildir í heiminum og betri lífskjör. Og við erum með langa sögu af traustu þingi og höfum sýnt að með því að virkja gildi sem víða í heiminum eiga undir högg að sækja einmitt um þessar mundir eru mestar líkur á því að framfarir haldi áfram að vaxa.

Þetta vil ég nefna vegna þess að margir hafa gert að umtalsefni í þessari umræðu í dag að hér séu margir flokkar með ólíkar skoðanir og jafnvel að allir flokkarnir gangi ekki alltaf í einu og öllu í takt. Ekki síst kemur þetta t.d. iðulega fram hjá þingflokki Miðflokksins. Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, talaði hér áðan og gerði mikið úr því. Maður veltir fyrir sér í tveggja manna þingflokki, þar sem sitja 63 þingmenn, hver hugmyndafræðin er varðandi framgang lýðræðisins svona almennt. Er það þannig að tveir eigi að setja 61 úrslita- og afarkosti, eða átta menn sig ekki á því í tveggja manna þingflokki að til þess að fá framgang sinna hugmynda þarf að leita málamiðlana og lausna, finna meiri hluta þar sem niðurstaðan verður á endanum það sem meiri hluti þingsins getur fellt sig við? Við erum hér í ríkisstjórn sem hefur traustan meiri hluta eftir kosningar frá árinu 2021. Sumir kalla eftir kosningum. Gott og vel, ég virði það sjónarmið. Ég er ósammála því sjónarmiði og mér sýnist að meiri hluti þingsins sé mjög ósammála því. Þá höldum við áfram að vinna vinnuna okkar og má ég biðja um að við sýnum íslensku þjóðinni að Alþingi sé að starfa í þágu þjóðar í anda þess sem umboðið liggur til, þ.e. að vinna að þeim málum sem meiri hluti þingsins hverju sinni telur mikilvægust og ræða síðan um öll mál og taka þau til afgreiðslu eftir atvikum.

Ég þakka fyrir góða umræðu. Nú er vinnan að fara af stað að nýju.