154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

ný búvörulög.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sagði nú reyndar fæst af því sem hv. þingmaður þóttist vera að hafa eftir mér hér, að ég hefði sagt öll rök þeirra sem gáfu umsagnir í málinu vera einskis virði og ómarktæk. Þetta er bara allt saman tómur þvættingur. Hv. þingmaður þolir greinilega ekki að málið sé rætt í einhverju eðlilegu samhengi. Það er dálítið sérstakt að vera staddur hérna í endurtekinni umræðu um nýsett lög. Hv. þingmaður er í þingflokki á þingi sem hefur mjög harðlega barist fyrir algerlega frjálsum innflutningi á t.d. kjúklingum frá Úkraínu, bara algerlega óheftum. Er það vegna þess að hv. þingmanni sé svo umhugað um frumframleiðendur á Íslandi í þeirri grein? Þykist hv. þingmaður í alvörunni ætla að koma núna upp, talsmaður þess að við fellum niður alla tolla og alla óbeina vernd fyrir þá sem eru að framleiða kjöt, afurðastöðvar og aðra slíka, og ætla að halda því fram að allt þetta mál snúist um það hversu umhugað honum er um að þarna ríki samkeppni þannig að sem flestir geti fengið þrifist? Staðreyndin í þeim heimi sem við búum í er að í flestum löndum er (Forseti hringir.) framleiðslan í þessum geira á tiltölulega fáum höndum. Við þurfum að aðlaga okkur að þeirri staðreynd og horfast í augu við það að framþróun í þessari grein hefur orðið afskaplega takmörkuð og lítil. Sláturhúsin standa tóm svo mánuðum skiptir,(Forseti hringir.) ekkert er fjárfest í nýsköpun í þessu og við því er verið að reyna að bregðast til að neytendur fái betri vöru og hægt sé að greiða frumframleiðendum hærra verð fyrir afurðirnar.