154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og nota tækifærið til að óska honum velfarnaðar í nýju starfi. Það dylst engum að framboð leiguhúsnæðis er og hefur verið allt of lítið. Það hefur lengi verið rætt um mikilvægi þess, bæði hér í þessum sal og úti í samfélaginu, af hálfu aðila vinnumarkaðarins, að lífeyrissjóðir komi í auknum mæli að fjármögnun á uppbyggingu leiguhúsnæðis og taki þannig þátt í að auka framboð sem þolinmótt fjármagn inn á markaðinn. Þannig hefur þróunin einmitt verið í mörgum af nágrannalöndum okkar þar sem lífeyrissjóðir eru jafnvel með safn leiguíbúða upp á tugir þúsunda og leigja þær út á frjálsum markaði. Það hefur reynst mjög arðbær fjárfesting, þarna eru fasteignir sem skila öruggum leigutekjum og ávöxtun. Þetta eru ekkert endilega íbúðir sem eru leigðar út til þeirra tekjulægstu en með þessu er einmitt sköpuð ákveðin kjölfesta á markaðnum sem heldur þá leigu- og fasteignaverði niðri sem hjálpar einmitt þeim tekjulægri.

Það urðu ákveðin tímamót í byrjun mars þegar sjóður í eigu íslensku lífeyrissjóðanna keypti Heimstaden. Þar erum við að tala um 1.600 íbúðir og mér skilst að félagið stefni á að tvöfalda það umfang. Ég held að breytingar á íslensku lagaumhverfi, sem eru til þess fallnar að ýta undir þessa þróun, hljóti að vera af hinu góða. Í frumvarpinu er farin sú leið að heimila lífeyrissjóðum að binda tiltekið hlutfall eignasafnsins í tilteknum óskráðum fjármálagerningum, útgefnum af fyrirtækjum sem hafa það að meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til einstaklinga til langs tíma. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þetta áðan en svo verður hverjum og einum lífeyrissjóði heimilt að eiga stærri hlut en 20% í leigufélögum með íbúðarhúsnæði í langtímaleigu til einstaklinga. Ég styð þetta. Ég held að þetta sé skynsamleg nálgun. Ég vona að þetta mál fái vandaða og tiltölulega skjóta umfjöllun á Alþingi og verði að lögum á þessu löggjafarþingi.

Svo er annað frumvarp, sem ég held að sé reyndar komið út úr nefnd, sem er gríðarlega mikilvægt til þess að ýta undir framboð á húsnæðismarkaði, bæði hvað varðar uppbyggingu leiguhúsnæðis og annarra íbúða, en það er frumvarp sem Reykjavíkurborg hefur t.d. ítrekað kallað eftir til þess að geta spornað betur gegn lóðabraski, komið í veg fyrir að verktakar sitji á lóðum árum saman án þess að uppbygging fari af stað. Þetta er frumvarp sem hæstv. ráðherra lagði hér fram áður en hann tók við nýjum ráðherrastóli. Ég vil hvetja þingheim og stjórnarmeirihlutann til að koma þessu máli, um tímabindingu á uppbyggingarheimildum sveitarfélaga, sem fyrst í gegnum þingið. Bara hér á höfuðborgarsvæðinu, í samþykktum skipulagsáætlunum, sjáum við heimildir fyrir byggingu á 14.000 íbúðum. Þetta eru tölur frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en uppbyggingin hefur gengið allt of hægt. Það er hætt við því að uppbyggingin muni áfram ganga hægt meðan vextir eru jafn háir og raun ber vitni og þar af leiðandi fjármagnskostnaður. Við verðum því að gera allt sem við getum til að liðka fyrir auknu framboði með skynsamlegum lagabreytingum. Það tiltekna frumvarp sem hæstv. ráðherra flutti hér áðan er liður í því og við í Samfylkingunni styðjum það.