154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[12:28]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu máli. Ég verð nú samt að segja, þrátt fyrir að hafa lesið greinargerðina, að ég á nokkuð bágt með að skilja hvað um er að ræða og þess vegna væri mjög gott, tel ég, fyrir framhald málsins að ráðherra fjallaði kannski í stuttu máli um það hvernig dreifð færsluskrártækni snertir íslensk fyrirtæki og íslenskt bankakerfi með beinum hætti. Skilgreiningin á þessu hugtaki er einfaldlega nokkuð óljós og maður hefur á tilfinningunni að hér sé komin hálfgerð Google-þýðing af færibandinu frá Brussel sem ég held að þurfi að staðfæra örlítið þannig að þingheimur átti sig betur á því hvað hér er verið að innleiða. Ég hef fullan skilning á því að ráðherra hafi kannski ekki alveg svör á reiðum höndum því að hann er nýkominn í embætti en engu að síður tel ég að þetta mál þurfi örlítið betri skýringar þó að það fylgi frumvarpinu greinargerð upp á 18 bls. eða þeim mun meira, í þeim pakka. Ég held að það væri ágætt að fá alla vega betri umfjöllun á einföldu máli þannig að þetta skiljist þokkalega.