154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

breyting á ýmsum lögum á fjármálamarkaði.

915. mál
[12:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Enn erum við hér að fjalla um mál þar sem annar ráðherra hélt um pennann. Mig langar að nefna það sérstaklega vegna þess að sá ráðherra er einmitt úr flokki sem hefur farið mikinn undanfarna mánuði í baráttu gegn einhverju sem þau vilja kalla gullhúðun á evrópsku regluverki, sem í flestum tilvikum virðist bara vera það að við innleiðingar á Evrópureglum þá hefur verið tekið mið af íslenskum aðstæðum og regluverkið innleitt þannig að það gagnist íslensku samfélagi sem best, en látum það liggja á milli hluta. Mér finnst þetta dálítið kúnstugt vegna þess að ráðherrann sem skrifaði frumvarpið leggur fram ansi langt frumvarp, þetta eru 57 greinar, ef ég man rétt, sem eiginlega allar eru þess eðlis að vera bara tæknilegar lagfæringar á lagatexta nema það er laumað með tveimur efnislegum breytingum til að bregðast við gagnrýni fjármálafyrirtækja og ESA. Ég velti fyrir mér hvað hæstv. ráðherra finnst um þá aðferðafræði að vera að lauma með efnislegum atriðum í frumvarpi sem á bara að vera tæknilegs eðlis, hvort það samrýmist því að vera í herferð gegn slíkum laumufarþegum á öðrum vígstöðvum eins og hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast vera.