154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

breyting á ýmsum lögum á fjármálamarkaði.

915. mál
[12:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ákveðnir þingmenn hafa meiri áhuga og tala mjög mikið um svokallaða gullhúðun og gildir það nú kannski frekar þegar innleiðing á reglu gengur lengra, er meira íþyngjandi eða flóknari úrlausnar fyrir íslenska borgara heldur en gildir almennt í Evrópuregluverkinu. Í þessu frumvarpi er ekki um neitt slíkt að ræða. Þetta frumvarp er ekki gullhúðun af nokkru tagi. Þetta eru leiðréttingar sem er búið að fara yfir til að skoða ítarlega hvað þarf að gera. Samhliða því er brugðist við einni ábendingu frá ESA sem og að í regluverki Íslands varðandi ákveðna þætti er tekið tillit til þess að það geti verið skynsamlegt að veita þarna ákveðna rýmri heimild til handa Fjármálaeftirlitinu þegar starfsfólk færist milli starfa og hefur ekki öðlast þau réttindi sem þar eru, en ég ítreka að þetta frumvarp hefur ekkert með gullhúðun að gera en við getum tekið umræðuna um gullhúðun og afleiðingar hennar við betra tækifæri.