154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[13:21]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar í því skyni að auka öryggi umferðar smáfarartækja sem og aðrar breytingar. Efni frumvarpsins var að mestu lagt fram á 153. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Svo forsaga málsins sé rakin þá skilaði starfshópur um smáfarartæki skýrslu í júní 2022 með tillögum að aðgerðum sem myndu stuðla að auknu öryggi við notkun smáfarartækja án þess að standa í vegi fyrir frekari þróun og innleiðingu fjölbreyttari og umhverfisvænni ferðamáta.

Tillögur starfshópsins að aðgerðum byggja á fenginni reynslu, eru í sex liðum og fimm þeirra varða breytingar á umferðarlögum.

Með frumvarpinu er lagt til að þær tillögur verði færðar í lög. Rafhlaupahjól eru þau smáfarartæki sem mest hefur verið um og njóta mikilla vinsælda. Notkun þeirra hefur raunar margfaldast á skömmum tíma en þessum vinsældum fylgja auðvitað áskoranir. Ökutækin geta skilað samfélaginu miklum ávinningi ef áskorunum verður mætt og nauðsynlegar breytingar gerðar.

Svo við förum yfir efni frumvarpsins þá er þar í fyrsta lagi lagt til að nýr ökutækjaflokkur verði innleiddur í umferðarlög þar sem tekið er mið af sérkennum smáfarartækja. Þá verður miðað við að smáfarartæki séu ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klukkustund og að hjól yfir þeim mörkum verði óheimil í umferð. Slysin hafa því miður verið of mörg og stóran hluta þeirra er að rekja til ölvunaraksturs.

Í öðru lagi er því lagt til að sett verði hlutlæg viðmið um áfengismagn í blóði ökumanna smáfarartækja og að refsivert verði að stjórna smáfarartæki ef áfengismagn er í blóði, þ.e. ef það áfengismagn er umfram 0,5‰ eða vínandi í lítra útöndunarlofts umfram 0,25 mg.

Til skýringar á þeirri breytingu sem hér er lögð til vil ég árétta að öll ölvunarbrot eiga samkvæmt gildandi umferðarlögum undir sama refsiákvæði. Það þýðir ekki að þau séu lögð að jöfnu eða að þau varði sömu refsingu heldur er um að ræða útfærslu með hefðbundnu refsiákvæði í sérlögum. Sektir fyrir helstu brot eru svo, eins og kveðið er á um í lögunum, ákveðnar í sektarreglugerð að fengnum tillögum ríkissaksóknara og verður ekki vikið frá ákvæðum hennar nema mjög veigamikil rök mæli með því.

Með frumvarpinu er engin breyting lögð til á framangreindu og ekki er lagt til að ölvunarakstur á smáfarartæki verði lagður að jöfnu við annan ölvunarakstur. Þá er heldur ekki lagt til að ölvunarakstur á smáfarartæki varði sviptingu ökuréttinda. Sú breyting sem lögð er til varðar refsinæmi. Samkvæmt gildandi ákvæðum á það sama við um ölvun á reiðhjóli og á hestbaki og smáfarartæki teljast samkvæmt gildandi lögum vera reiðhjól. Háttsemin er þá refsiverð þegar viðkomandi er svo ölvaður að hann getur ekki lengur stjórnað hestinum eða hjólinu örugglega. Ákvæðið er með öðrum orðum matskennt og lögregla þarf að sýna að viðkomandi hafi ekki getað stjórnað smáfarartækinu örugglega vegna áfengisneyslu og geta mörkin því verið ólík á milli manna. Til að auðvelda lögreglu framfylgd ákvæðisins er þess vegna með frumvarpinu og í samræmi við tillögur starfshópsins lagt til að mælt verði fyrir um hlutlæg áfengismörk og er lagt til að þau verði hin sömu og eiga við um önnur vélknúin ökutæki.

Annar áberandi hópur slasaðra á rafhlaupahjólum eru börn, en árið 2020 voru börn um 45% þeirra sem leituðu á bráðamóttöku vegna slíkra slysa. Sérstaka athygli vakti að þriðjungur þeirra barna var undir tíu ára aldri. Mjög ung börn ráða ekki yfir færni til aksturs vélknúinna ökutækja og hafa jafnvel ekki fengið viðeigandi umferðarfræðslu. Sökum þessa er knýjandi að sett verði almenn aldursmörk fyrir notkun farartækja og er lagt til að aldursmörk til aksturs smáfarartækja verði 13 ár og að hjálmaskylda verði til 16 ára aldurs.

Varðandi þá tillögu vil ég benda á, eins og fram hefur komið, að smáfarartæki teljast í dag til reiðhjóla. Börn yngri en 16 ára skulu nota hjálm við hjólreiðar og er lagt til að það muni áfram eiga við um smáfarartæki. Um aldursmörkin vil ég enn fremur benda á að smáfarartæki eru að mörgu leyti mjög sambærileg léttum bifhjólum í flokki I, en þau eru heldur ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klukkustund. Löggjafinn hefur fyrir tilstuðlan hv. umhverfis- og samgöngunefndar mælt svo fyrir að enginn yngri en 13 ára megi stjórna slíku ökutæki og er tillagan til samræmis við þau mörk. Þá hefur komið fram í niðurstöðum rannsóknar sem birt var í Læknablaðinu að slysatíðni yngri barna á smáfarartækjum væri margfalt hærri en þeirra sem komin eru á unglingsaldrinum. Það er því rétt að takmarka akstur smáfarartækja við 13 ára aldur.

Í fjórða lagi er lagt til almennt bann við því að breyta hraðastillingum aflknúinna smáfarartækja, léttra bifhjóla og rafmagnsreiðhjóla svo að þau nái hraða umfram þann sem þeim er heimilt að ná.

Í fimmta lagi og að lokum er í frumvarpinu lagt til að leyfa eigi akstursmat farartækja í almennri umferð á vegum þar sem hámarkshraði er ekki umfram 30 km á klukkustund að því gefnu að gengið verði að tillögum hvað varðar ölvunarakstur og aldursmörk. Skal þó tekið fram að veghaldari getur lagt sérstakt bann við umferð smáfarartækja á einstökum vegum eða vegarköflum þyki honum ástæða til þess.

Ég vil að endingu geta breytinga sem í frumvarpinu felast en varða ekki smáfarartæki. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að ríkisaðila verði með samþykki ráðherra heimilað að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í eigin umráðum. Það er til viðbótar fyrri heimildum ríkisaðila til að sjá um innheimtu fyrir notkun stöðureita sem hann hefur umsjón með og ætlað til einföldunar.

Í öðru lagi er lögð til breyting sem var ekki hluti frumvarpsins eins og áður hafði verið mælt fyrir því. Með henni er lagt til að brot á prófareglum í ökuprófi geti til viðbótar við núverandi viðurlög einnig varðað sviptingu réttar til að þreyta ökupróf að nýju í allt að sex mánuði. Hingað til hefur manni sem gerist sekur um brot á prófareglum aðeins verið vísað úr prófi og hann hefur getað mætt aftur til prófs viku síðar. Áhrif þess á umferðaröryggi eru bersýnilega neikvæð þar sem eitthvað hefur verið um brot og gera má ráð fyrir því að einhverjir hafi staðist ökupróf sem þeir hefðu annars ekki staðist. Þykir því bæði nauðsynlegt og hæfilegt að viðkomandi verði óheimilt að þreyta ökupróf um ákveðinn tíma.

Í þriðja lagi er Vinnueftirlitinu falið markaðseftirlit með smáfarartækjum. Þegar hefur verið lagt til í frumvarpi sem er til meðferðar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fari almennt með markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum. Vinnueftirlitið fer þó þegar með markaðseftirlit með hluta smáfarartækja í samræmi við Evrópulöggjöf og því til einföldunar er lagt til að stofnunin sinni því að öllu leyti í stað þess að því verði frekar skipt á milli stofnana.

Að lokum er svo fyrir tilstuðlan fjármála- og efnahagsráðuneytisins lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði í virðisaukaskattslögum. Með henni er lagt til að sérstakri virðisaukaskattsívilnun vegna reiðhjóla verði breytt í þeim tilgangi að viðhalda gildissviði ákvæðisins og að hún muni áfram eiga við um smáfarartæki.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins og vísa að öðru leyti til frumvarpsins sjálfs og greinargerðar sem fylgir því. Það er mitt mat að samþykkt frumvarpsins komi til með að stuðla að auknu umferðaröryggi og legg ég því til að eftir 1. umræðu verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umræðu.