154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[13:53]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Orra Páli Jóhanssyni fyrir ræðuna og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir yfirferð sína á þessu áhugaverða máli hér í dag. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hlakka mikið til að eiga í efnislegum umræðum á síðari stigum þótt ég sé ekki svo lukkuleg að eiga sæti í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem málið fær viðeigandi umfjöllun. Engu að síður áskil ég mér rétt til þess að koma hérna inn á ákveðin atriði. Ég get í grundvallaratriðum verið hjartanlega sammála því sem fram kom í máli hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar og tel að áherslurnar sem þar komu fram séu í samræmi við það sem stendur mér nærri, það eru óneitanlega jákvæð umhverfisáhrif sem hljótast af notkun smáfarartækja sem í daglegu máli eru kölluð rafskútur, rafhlaupahjól, og örflæðið gerir okkur kleift að sigrast á því sem ég myndi segja að væri ein stærsta ógnin við heilsufar hins almenna Reykvíkings í dag vegna þess að við erum auðvitað að drukkna í bílaumferð á þessu landi. Svo ég haldi mig nú við einn part í þessu frumvarpi sem ég hef áhyggjur af þá fer jú áfengisneysla og notkun rafhlaupahjóla ekki saman en ákvörðunin um að svipta fólk á rafhlaupahjóli ökuleyfi í kjölfarið á neyslu áfengis — hefur hún verið hugsuð í gegn? Ég nefnilega velti því fyrir mér hver heildaráhrifin verða til lengri tíma vegna þess að þó svo að einhver sé sviptur ökuleyfi þá getur sá hinn sami haldið áfram að nota rafskútu.