154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna samstarfs og eftirlits á vinnumarkaði.

909. mál
[14:34]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að fara örlítið aftur í það sem við vorum að ræða hérna áðan vegna þess að það sem við höfum verið að sjá, og einmitt á Norðurlöndunum, líkt og hv. þingmaður nefnir, er að hegningarlögin eða almennu hegningarlögin hafa verið í auknum mæli að takast á við þætti eins og launaþjófnað. Mig langar að tengja það líka inn í þá umræðu sem hefur verið hér á undanförnum vikum vegna aðgerða lögreglu og fleiri til að takast á við alvarleg brot á vinnumarkaði. Við getum verið að tala um vinnumansal í því tilviki og þar akkúrat þurfum við að mínu mati að skoða betur hegningarlöggjöfina vegna þess að það kann að vera að það sé skynsamlegt að hafa eilítið vægari refsingar gagnvart brotum sem tengjast vinnumansali heldur en því dæmigerða mansali sem við sjáum fyrir okkur þegar það orð er nefnt. Það hafa hin Norðurlöndin verið að gera, m.a. ef ég man rétt Danmörk og Svíþjóð. Þetta er eitthvað sem ég vil líta til núna, eins og hv. þingmaður nefnir, á seinni hluta þessa kjörtímabils.

Það sem hv. þingmaður nefnir varðandi starfsmannaleigufyrirtækin — það er reyndar verið að deila um þessar breytingar í Noregi, sumar hverjar, fyrir dómstólum. Það verður mjög áhugavert að sjá þá niðurstöðu þannig að ég myndi alltaf segja — og hún er vegna þess að það er verið að takmarka starfsemi starfsmannaleigna á ákveðnum svæðum, svo dæmi sé tekið. Ég held að það væri mjög áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessum dómsmálum í Noregi þannig að við sjáum svolítið betur hvort við getum stefnt í sömu átt en sjálfsagt þætti mér að reyna að fara að hefja undirbúning að þessu því að ég deili þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur haft hér frammi hvað þetta mál varðar.