154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[14:48]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. En finnst ráðherra engin mismunun felast í því að foreldrar njóti þessarar hækkunar einvörðungu ef barnið fæðist akkúrat eftir tiltekna dagsetningu? Er ekki allt eins hægt að halda því fram að það sé ákveðin mismunun? Svo er, óháð öllum jafnræðisrökum, líka hægt að færa fyrir því heilsufarsleg rök að það geti skapað streitu hjá barnshafandi konum þegar svona er notast við fæðingardag að fólk eigi allt undir því hvað þetta varðar að barnið fæðist einhvern veginn réttum megin við ákveðna dagsetningu.

Ég held að það sé hægt að færa rök fyrir gildistökuákvæði af þessu tagi þegar verið er að gera mjög umfangsmiklar breytingar, kerfisbreytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni, en hérna erum við með mjög afmarkaðar breytingar, bara hækkun á þessu þaki (Forseti hringir.) og þá finnst mér hníga mjög sterk rök að því að breytingin taki til allra þeirra sem eru að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frekar en bara þeirra sem eignast börn akkúrat frá og með 1. apríl 2024.