154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[14:53]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég er enn þá mjög hugsi yfir þessu og ég er líka svolítið hugsi yfir útfærslunni á þessu ákvæði, af því að þetta er ákvæði til bráðabirgða. Það segir að þrátt fyrir 1. mgr. 24. gr. skuli hámarksfjárhæðin vera 700.000 kr. Hvers vegna var 1. mgr. 24. gr. ekki bara breytt? Hvers vegna er þetta sett í bráðabirgðaákvæði? Hvers vegna er valið að fara þá leið að útfæra þessar hækkanir sem eiga eftir að koma til á næstu árum með reglugerð í staðinn fyrir að breyta 1. mgr. 24. gr., sem er efnisgreinin um þessa hámarksfjárhæð? Ég myndi telja að það væri kannski eitthvað sem þyrfti líka að skoða í nefndinni af því að ég skil ekki alveg af hverju valið var að fara þessa leið að útfærslunni.