154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[14:54]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á atriði sem við skoðuðum í ráðuneytinu. Það er gaman að sjá hversu glögg hv. þingmaður er hvað varðar þetta í rauninni tæknilega atriði. Ástæðan fyrir því að við fórum þessa leið er sú að það er heimild í, ef ég man þetta rétt, 54. gr. laganna til að gera reglugerðarbreytingar sem taka gildi um áramót. Það er hins vegar ekki heimild til að gera þær á miðju ári. Þess vegna þarf að fara þá leið að gera breytingar á lögum fyrir þennan hluta hækkunarinnar frá 1. apríl og út þetta ár en það er nægjanlegt að gera þetta með reglugerðarbreytingu fyrir það sem á eftir kemur, fyrir árin 2025 og 2026. Það er auðvitað einfaldara að gera slíkar breytingar með einfaldri reglugerð en lagabreytingu. Það hefði í sjálfu sér verið hægt að fara hvora leiðina sem er en þessi var valin, eða ég tel svo vera. Það má líka spyrja sérfræðinga ráðuneytisins frekar út í það í nefndinni.