154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[14:56]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ágæta umfjöllun um að mörgu leyti farsælt mál sem hefur þó þann ágalla að eins og með margar breytingar til bóta þá eru þær kannski ekki nógu víðtækar. Hæstv. ráðherra hefur farið yfir það hér svona bærilega hvers vegna hækkanirnar eiga ekki að taka til allra þeirra foreldra eða hópa sem nú þegar þiggja greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Ég ætla svo sem ekki að verja mínum takmarkaða tíma hér í að óska frekari skýringa en verð þó að koma því á framfæri að mér finnst skorta á hlutlæg viðmið í því mati, sem er auðvitað alltaf erfitt. En ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi lagt mat á þann kostnað sem myndi hljótast af því að leiðrétta hlut allra þeirra sem þegar þiggja greiðslurnar með þeim hætti sem fjallað hefur verið um í dag í andsvörum. Við vitum að núgildandi kostnaðarmat bara varðandi fæðingarorlofshlutann, þ.e. þá sem eru í hefðbundnu fæðingarorlofi, er 400 millj. kr. og myndi ég gjarnan vilja vita hvort sú vinna hafi farið fram.