154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[14:58]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég verð þó bara að leggja áherslu á að málefni Fæðingarorlofssjóðs skapa oftar en ekki miklar umræður og eru bara í eðli sínu mjög umdeild. Það er í raun mjög breiður skoðanaágreiningur sem myndast oft og iðulega í kringum það þegar breytingar eru gerðar á bæði málefnum sjóðsins og fyrirkomulagi orlofsins. Það breytir því ekki að ásamt leikskólanum er þetta stærsta, ég leyfi mér að segja það, jafnréttismál samtímans. Ég fagna því að verið sé að gera þar breytingar til bóta. Þær ganga þó ekki nógu langt og hvet ég ráðherra einlæglega til dáða í því að leiðrétta hlut sem flestra heimila sem þiggja greiðslur úr sjóðnum, ekki bara til þess að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína, því að við vitum að þetta er kynbundið vandamál, heldur verðum við að brúa hið margumtalaða umönnunarbil og það sem allra fyrst.