154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:00]
Horfa

María Rut Kristinsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir fína umfjöllun um þetta mál. Maður lærir það svolítið hratt hér á þinginu að það þynnist svolítið í spurningalistanum eftir því sem líður á andsvörin þannig að ég held að búið sé að tikka í flest boxin sem ég hafði hug á að spyrja út í. En það þýðir ekki að maður geti þá ekki komið upp og tekið svolítið samtal um þetta kerfi almennt. Ég væri til í að fá að vita hvort áform séu um áframhaldandi virkt samtal um það hvernig ríki og sveitarfélög ætla sér að brúa þetta bil. Þó svo að þetta sé vissulega skref, jákvætt skref, er mjög ólíklegt að þetta sé einhver endapunktur á því að ná utan um þetta kerfi þannig að fólk hafi hreinlega efni á því að fara í fæðingarorlof og lifa af sómasamlega meðan á því stendur, vegna þess að þótt orlofið sé orðið 12 mánuðir eru leikskólaplássin ekki komin á þann stað að það sé öruggt að fá þar pláss. (Forseti hringir.) Mig langar því að spyrja: Er eitthvað fleira á dagskránni hjá ráðherra þegar kemur að fæðingarorlofsmálum?