154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:02]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eitt af því sem við höfum rætt og tengist því sem hv. þingmaður kemur inn á er einmitt það hvernig á að brúa umönnunarbilið. Það er auðvitað í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og eitt af því sem kom til umræðu við gerð þess stuðningspakka sem við lögðum fram í samvinnu við sveitarfélögin. Hér segir í fréttatilkynningu frá Stjórnarráðinu, með leyfi forseta:

„Aðilar munu taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Aðgerðir gegn kynbundnum launamun.

Til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati …“ — og þar fram eftir götunum.

Þannig að svarið er já. (Forseti hringir.) Það er fyrirhuguð vinna til að reyna að stíga skref í þá átt að loka umönnunarbilinu vegna þess að það er risastórt réttlætis- og baráttumál, ekki síst fyrir jafnrétti kynjanna.