154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:05]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi það sem snýr að umönnunarbilinu og því stóra verkefni að loka því þá voru stigin risastór skref í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í hennar fyrsta ráðuneyti þegar fæðingarorlofskerfið var lengt. Það var heillaskref að mínu mati að við skyldum gera það með þeim hætti að skiptingin væri nánast sú sama á milli foreldra vegna þess að það styður við atvinnuþátttöku kvenna og jafnrétti kynjanna. Það er mikilvægt mál. Við verðum hins vegar líka að taka inn í þetta að sveitarfélögin þurfa að gera betur þegar kemur að því að ekki bara manna leikskólana heldur að leikskólarnir byrji fyrr, geti fyrr tekið á móti börnum. Það verður að ræða þetta í því samhengi (Forseti hringir.) vegna þess að í mínum huga hefur ríkisstjórnin undir forystu Katrínar Jakobsdóttur á sínum tíma stigið risastór skref af hálfu ríkisins að því að loka þessu umönnunarbili. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að við fáum meiri kraft sveitarfélaganna megin inn í þessa vinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)