154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Mér fannst afskaplega gott að heyra hana segja að henni fyndist rétt að velferðarnefnd tæki til skoðunar dagsetninguna á þessu úrræði og hvort þetta næði þá í raun yfir alla sem eru í fæðingarorlofi, þessi hækkun á þakinu svokallaða. Ég velti því líka fyrir mér hversu hratt hún sér fyrir sér hækkunina upp í 900.000 gerast. Liggur það fyrir? Ég er kannski ekki alveg klár á því. Á þetta að gerast á fjórum árum og hversu hratt á þetta að fara upp? Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þessi endadagsetning er á ákvæðinu. Ég skil ekki alveg hvers vegna þessi breyting endar í lok árs. Fer þetta þá aftur niður í 600.000 eða hvernig á það að virka? Er það ekki eitthvað sem velferðarnefnd þarf að skoða, af hverju þessi endadagsetning er? Ég átta mig ekki alveg á því. Mér finnst gott að heyra að hv. þingmaður í stjórnarmeirihlutanum vill skoða það að þetta nái yfir alla þá sem eru í fæðingarorlofi vegna þess að auðvitað breytir það engu fyrir foreldri hvort barn þess fæðist í mars eða apríl. Þetta þak mun hafa alveg jafn jákvæð áhrif hvar sem er og því get ég heldur ekki trúað því að það muni það miklu í krónum og aurum að þetta skipti öllu höfuðmáli í þessu samhengi. En í ljósi þess að hv. þingmaður segir þetta þá vil ég spyrja: Er samhugur um það innan stjórnarflokkanna að skoða það alvarlega að breyta þessari dagsetningu, 1. apríl, og veit hún deili á því hvers vegna lokadagsetningin er í lok þessa árs? Á þá að fara aftur niður í 600.000 eða hvers vegna lýkur þessu úrræði 31. desember 2024?