154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið og ítreka það sem ég sagði áðan, það er ekki gert ráð fyrir því að þetta gangi með einhverjum hætti til baka. Verið er að hækka þakið varanlega. Ég skil samt alveg vangaveltur hv. þingmanns um að þetta sé gert með reglugerðarbreytingum. Hæstv. ráðherra fór yfir það og það er tilgreint hér í greinargerðinni að það sé heimilt og þess vegna hyggist hann gera það með þeim hætti. En mér finnst full ástæða til að við ræðum það í nefndinni hvaða leið er farin með því og örugglega verða sérfræðingar ráðuneytisins spurðir spurninga hvað það varðar þegar þeir koma til okkar.

Hv. þingmaður nefndi líka gólfið. Ég var einmitt að fletta upp ræðunni minni frá því í desember 2020 þegar við vorum að lengja fæðingarorlofið. Ég fagnaði því mjög og sagði að næsta skref væri að hækka þakið. Án efa þurfum við skoða þetta með gólfið, ég er algerlega sammála hv. þingmanni í því.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að þau réttindi sem við höfum hérna á Íslandi í gegnum Fæðingarorlofssjóðinn eru mikil og góð í öllum alþjóðlegum samanburði. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga. En við viljum líka vera alveg best í þessu. Við viljum alveg svolítið mikið vera best í heimi. Við sláum þau met að hér er jafnrétti með því besta sem þekkist í heiminum, ég man ekki hvort það eru 12 ár í röð eða eitthvað sem við höfum verið í fyrsta sæti hvað það varðar. Ég er algerlega sannfærð um að Fæðingarorlofssjóðurinn okkar og kerfið í kringum hann er risastórt tæki á þeirri vegferð.

Svo er líka það sem ég nefndi hér áðan, og þá ætla ég bara að leyfa mér að vera femínískur kapítalisti, að þetta er rosalega mikil spurning um efnahagsmál framtíðarinnar á sama tíma og að sjálfsögðu eigi alltaf að virða sjálfsákvörðunarrétt hverrar konu yfir sínum líkama og hvort hún vilji eignast börn eða ekki, því að það er alveg sjálfsagt að fólk taki þá ákvörðun að vilja það ekki. Með þessu er ég ekki að segja það heldur að við eigum að búa til kerfi sem hvetur frekar en letur konur til að hafa fullan sjálfsákvörðunarrétt í þessum málum. Við förum vel yfir þetta en mér heyrist vera mikill samhljómur í þingsal um þetta góða mál.