154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:37]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið sem fól ekki í sér beina spurningu heldur kannski mikilvægt samtal sem við þurfum að eiga. Þess vegna er líka gott að þegar fram koma mál og þó að þau fjalli bara um einn afmarkaðan hluta einhvers kerfis sem við erum búin að setja upp þá getum við velt upp öðrum hlutum í því kerfi. Þetta er auðvitað eitthvað sem er tilfinnanlegt í íslensku samfélagi af því að við horfum á fæðingartölur fara niður og við erum að sjá að ungt fólk er að eignast færri börn en áður. Með tilliti til öldrunar þjóðarinnar og aldurspíramídans þá skiptir þetta máli fyrir efnahagsframtíð Íslands. Þess vegna finnst mér einmitt mikilvægt að þau skilaboð sem við sendum, sem við gerum auðvitað með því að hækka þessar greiðslur, séu að við viljum að ungt fólk fjölgi sér, að Íslendingar og þeir sem hér búa geri það og geti gert það á raunhæfan máta. Ég er bara hjartanlega sammála hv. þingmanni að þau skilaboð að þú verðir alltaf fyrir 20% tekjuskerðingu, sama hvað, eru auðvitað ekki mjög jákvæð skilaboð. Þetta er einn fimmti og það er bara ofboðslega hátt hlutfall. Ég tel þó að þessi breyting hafi verið mjög mikilvæg og ég er svo glöð að þetta var partur af kjarapakkanum af því að það er mikilvægt að vekja máls á þessu og mikilvægt að stjórnvöld hafi augun á boltanum þarna og hlusti líka á hvað það er sem kallað er eftir í samfélaginu, eins og þessar breytingar á fæðingarorlofskerfinu og þeim greiðslum sem ungt fólk fær, því að eins og hv. þingmaður sagði er vissulega mjög dýrt að eignast barn.