154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

922. mál
[16:24]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og verð að segja að ég deili því með hv. þingmanni að í velferðarkerfinu þurfum við að horfa meira til þess með hvaða hætti er hægt að mæta umönnunarvinnu sem unnin er af aðstandendum, alla vega í ákveðnum tilvikum. Nú vil ég tala kannski aðeins meira almennt heldur en bara fyrir persónulega talsmenn. Þetta snýst um nokkur grundvallaratriði eins og hver það er sem sinnir akkúrat slíkri vinnu og þá kannski ekki síst þegar kemur að því hvort þetta sé einstaklingur sem er mjög nákominn hinum fatlaða einstaklingi í þessu tilfelli, hvort það sé alltaf heppilegt o.s.frv. Það eru mismunandi skoðanir á þessu. En heilt yfir er ég sammála hv. þingmanni um að við þurfum að leggjast betur yfir það hvort persónulegir talsmenn eigi í þessu tilfelli að fá greitt eða ekki. Þetta vekur mig nú bara til umhugsunar um hvort þetta væri eitthvað sem maður ætti kannski að setja vinnu í gang við að skoða sérstaklega. Það hef ég ekki gert hingað til þó svo að þetta sé eitt af því sem maður hefur hugsað um í stærra samhengi, þá sérstaklega að það eru einmitt oft konur sem sinna þessum störfum og það ekki bara þegar kemur að persónulegum talsmönnum heldur líka bara almennt, m.a. að sinna eldra fólki o.s.frv. Það eru til fyrirmyndir, m.a. í Evrópu, að því með hvaða móti væri hægt að mæta þessu, alla vega að einhverju leyti. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga þetta fram hérna. Þetta er mikilvægt atriði.