154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

922. mál
[16:31]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nú er það þannig að frumvarpið um Mannréttindastofnun Íslands er í meðförum Alþingis og ég auðvitað vonast til þess og vil sjá það gerast að Mannréttindastofnun Íslands verði komið á fót með lögum frá Alþingi. Það frumvarp sem hér er lagt fram er ekki bara lagt fram til að styðja við þær breytingar sem þar eru lagðar til, heldur getur það staðið eitt og sér. Það kann að vera að gera þurfi einhverjar breytingar á því ef það kæmi til. En ég geng auðvitað út frá því að við klárum bæði þessi mál, í sjálfu sér ágætt að geta gert það samhliða en þetta mál fellur ekki á því ef hitt málið yrði ekki samþykkt. Það þarf að skýra hlutverk og heimildir bæði réttindagæslumanna og persónulegra talsmanna hvað sem líður Mannréttindastofnun Íslands.