154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

sjúkraskrár.

906. mál
[17:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að draga fram og kjarna mjög mikilvægt atriði sem er aðalatriðið í þessu þegar við erum að ræða um þennan sjálfsákvörðunarrétt, af því að við erum hér að reyna að styrkja hann. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þessar athugasemdir og gagnrýni réttindagæslumanna fatlaðs fólks var mjög gagnleg og málið tók á sig allt aðra mynd. Áfram er mikilvægt að velferðarnefnd taki þessa umræðu og fari vel yfir þetta.

Við getum kannski spurt okkur að því hvernig við tryggjum með slíkri veitingu umsýsluumboðs að það sé ekki brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga með fatlanir eða færniskerðingar. Þegar við erum að tala um heimildir fyrir einstaklinga til að óska eftir því að umboð þeirra til annarra verði skráð, sem hingað til hefur ekki verið gerlegt, hvort einstaklingar séu þá ófærir um að veita slíkt umboð vegna færniskerðingar, þá erum við að setja hér inn eftir þessar ágætisathugasemdir ráðstafanir til að tryggja þessa virðingu fyrir sjálfsákvörðunarréttinum. En það kann að vera — mér finnst mikilvægt að þessi umræða rati inn í hv. velferðarnefnd sem skoði það enn frekar af því að hér er búið að setja inn atriði um að virða beri skoðanir einstaklings á vali á umsýsluumboðshafa og að hann geti komið vilja sínum á framfæri með hefðbundnum eða óhefðbundnum leiðum, eins og það er orðað er í frumvarpinu. Sérfræðilækni ber síðan að hafa samráð við einstaklinginn sjálfan og nánustu ættingja og aðstandendur eins og við á. Hafi einstaklingur persónulegan talsmann þá skal hafa samráð við hann og eftir atvikum leita til réttindagæslumanns fatlaðs fólks til að aðstoða einstaklinginn við að koma vilja sínum á framfæri. Það kann að vera að við þurfum bara að fara betur yfir þetta (Forseti hringir.) þannig að hægt sé með frekari hætti að virða þetta, sem er mjög mikilvægt.