154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

sjúkratryggingar.

908. mál
[18:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að beina spurningu til hæstv. ráðherra varðandi samráð við vinnslu frumvarpsins og athugasemdir sem Persónuvernd gerði á þeim tímapunkti. Í umsögn Persónuverndar segir m.a. að í 24. gr. frumvarpsins sé gert ráð fyrir að Sjúkratryggingum Íslands verði heimilt að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, svo sem til heilsugæslustöðva, á grundvelli ákveðinna fjármögnunarlíkana og að við útreikning þeirra greiðslna sé stofnuninni heimilt að kalla eftir upplýsingum um notendur þjónustunnar, m.a. úr atvinnuleysisskrá. Persónuvernd telur ljóst af rökstuðningi fyrir þessari tillögu í frumvarpsdrögunum að málefnalegar ástæður liggi að baki þessari heimild til miðlunar og vinnslu persónuupplýsinga. Hins vegar bendir Persónuvernd á að tillagan að umræddu ákvæði sé víðtækari en svo að hún rúmist innan rökstuðningsins sem er fyrir þessari miðlun. Segir Persónuvernd raunar að þau telji þörf á að umrætt ákvæði frumvarpsdraganna, sem er 24. gr., sé afmarkað frekar þannig að ekki sé opnað fyrir túlkun sem fer út fyrir þann tilgang sem ákvæðið grundvallast á. Í ofanálag gerir Persónuvernd athugasemd við að þær upplýsingar sem þarna er aflað — það ætti ekki að reynast nauðsynlegt að varðveita þær til frambúðar en hins vegar er hvergi í lögunum talað um eyðingu þessara gagna. Af greinargerð með frumvarpinu sýnist mér ekki hafa verið brugðist við þessari ábendingu Persónuverndar með breytingu á orðalagi laganna, heldur einungis orðalagi í athugasemdum (Forseti hringir.) sem virðist ekki vera nóg miðað við þessa athugasemd Persónuverndar. Mig langaði kannski bara að spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvers vegna það hafi ekki verið gert.